Miðvikudagur 10. desember 2003

344. tbl. 7. árg.

Í

Skyldu smábátasjómenn telja sig betur setta  ef starfsmannafjöldi símafyrirtækja yrði þrefaldaður?

slendingar hafa eins og aðrir mátt hlusta á og jafnvel líða fyrir afleiðingarnar af baráttunni gegn vinnusparnaði. Fylgjendur erfiðrar lífsbaráttu hafa í gegnum aldirnar barist gegn framförum og fundið þeim flest til foráttu. Þeir hafa svo sem ekki komið hreint fram og lýst sig andsnúna framförum, heldur hafa þeir yfirleitt önnur yfirlýst markmið. Hér á landi hefur á undanförnum árum mátt sjá límmiða með slagorðinu „3x meiri atvinna“, sem á að vísa til þess að smábátaútgerð fylgi margfalt meiri atvinna en togaraútgerð og þess vegna eigi smábátar að hljóta sérstaka náð fyrir augum stjórnvalda. Þessi barátta hefur því miður skilað árangri og útgerðir smábáta hafa notið forréttinda umfram aðrar útgerðir eins og sjá má af auknum afla þeirra miðað við heildarafla. Og einn angi vandamálsins skaut upp kollinum á dögunum þegar ákveðið var að veita svokallaða „línuívilnun“ eftir mikinn þrýsting frá þröngum sérhagsmunahópi.

En eins og áður sagði er þessi barátta gegn hagkvæmni og skilvirkni alþjóðlegt vandamál og hagfræðingurinn Walter Williams gerði það að umtalsefni í grein í The Washington Times á dögunum. Williams segir frá því að árið 1970 hafi 421.000 manns starfað við miðlun símtala í Bandaríkjunum og að þá hafi Bandaríkjamenn hringt 9,8 milljarða langlínusímtala. Nú hringi Bandaríkjamenn meira en tífalt fleiri langlínusímtöl á ári og ef hið opinbera hefði gripið fram fyrir hendurnar á tækninni væru nú yfir 4,2 milljónir Bandaríkjamanna starfandi við að koma símtölum áleiðis, eða 3% af vinnuafli landsins. Og ef verðið hefði ekki lækkað væru langlínusímtöl 40 sinnum dýrari en þau eru í dag. Raunin er þó sú að sjónarmið andstæðinga vinnusparnaðar hafa ekki fengið að ráða í fjarskiptageiranum og nú starfa aðeins 78.000 manns við að miðla símtölum Bandaríkjamanna, eða innan við 20% af þeim fjölda sem áður þurfti til að sinna mun færri símtölum á mun hærra verði.

Sérhagsmunir og misskilningur hafa í gegnum tíðina haldið aftur af framförum á mörgum sviðum og kostað marga sára fátækt. Williams nefnir einmitt dæmi um einn mann sem líklega vildi vel en tókst þó að vinna töluvert ógagn með baráttu gegn vinnusparnaði, en það var Mahatma Gandhi á Indlandi árið 1924. Gandhi barðist gegn vélvæðingu með þeim orðum að vélar ættu ekki að vinna gegn handverki manna og afleiðingarnar voru að sögn Williams þær, að árið 1970 var framleiðni í vefnaði á Indlandi sú sama og á þriðja áratugnum í Bandaríkjunum. Þetta er ágætt að hafa í huga næst þegar hugmyndir um að draga úr framleiðni skjóta upp kollinum hér á landi.