Þriðjudagur 9. desember 2003

343. tbl. 7. árg.

Á

Ætli verðið væri jafn lágt ef sérstakt opinbert eftirlit væri með því að vörurnar séu búnar til úr réttum efnum á réttan hátt?

Alþingi liggur nú fyrir frumvarp sem heimilar hærri rekstrarkostnað hjá þeirri opinberu stofnun sem fer með eftirlit með fjármálastofnunum, Fjármálaeftirlitinu. Eins og kveðið er á um í lögum eru það eftirlitsskyldir aðilar sem greiða kostnaðinn af umræddu eftirliti og því fjallar þetta frumvarp um hækkun greiðslna eftirlitsskyldra aðila til Fjármálaeftirlitsins. Aðilar bera sem sagt kostnaðinn af eftirlitinu með sjálfum sér. Það er ekki ólíklegt að þetta fyrirkomulag sé afsprengi hugmynda sem urðu nokkuð vinsælar fyrir nokkrum árum og hljóðuðu upp á „að þeir borgi fyrir eftirlitið sem njóti þess“ – eða eitthvað í þá áttina og var kannski hugmynd sem leidd var af þeirri eðlilegu kröfu atvinnulífsins um að ekki sé rukkað fyrir eftirlit sem ekki fer raunverulega fram. Það má hins vegar velta því fyrir sér hversu eðlilegt það sé að leggja kostnaðinn við eftirlit alfarið á herðar þeirra sem eftirlitsskyldir eru, einkum í ljósi þess að eftirlitið er gjarnan í „þágu“ afar breiðs en óskilgreinds hóps. Í tilfelli Fjármálaeftirlitsins hljóta það að vera neytendur almennt, viðskiptavinir banka, lífeyrissjóða og annarrar fjármálastofnana, sem eru í raun þiggjendur þessa eftirlits. Rétt eins og eftirlit lögreglu með ástandi ökumanna á vegum úti er í þágu allra þeirra sem um leið eiga.

Líklega skipta þessar vangaveltur þó ekki nokkru máli því þegar allt kemur til alls eru það auðvitað neytendur sem greiða brúsann hvort sem er, hvort sem um er að ræða eftirlit með ökumönnum eða fjármálastofnunum. Fjármálastofnanir eiga nefnilega þann möguleika, sem eðlilegt er að þær nýti, að velta kostnaðinum yfir á neytendur. Það er bara synd hversu lítill skilningur er á þessari hringrás hjá þeim sem aftur og aftur leggja til aukinn eftirlitskostnað. Þá virðist ekki vera nokkur skilningur á þessu hjá þeim sem þykjast bera hag neytenda fyrir brjósti en þeir eru einmitt oft fljótir að leggja til eftirlit sé aukið á hinum ýmsu sviðum.