Ádögunum var Vestfirðingur nokkur úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um brot gegn nokkrum ungum drengjum. Frá þessu var skýrt í fjölmiðlum sem sjálfsagt var ekki að undra, en einn fjölmiðill gekk þó verulega lengra en aðrir. Eitt dagblaðanna birti á forsíðu sinni bæði nafn og andlitsmynd hins grunaða manns og liggur við að eftir það sé eðlilegast að óska manninum þess að hann sé í raun sekur um það sem hann er sakaður um, svona svo hann hafi ekki þurft að þola þetta saklaus. Nei, auðvitað má ekki taka þetta bókstaflega, það er óskandi að þau brot sem grunur leikur á, hafi í raun ekki verið framin en um það veit Vefþjóðviljinn auðvitað ekki neitt frekar en aðrir. Hinn grunaði maður getur þess vegna verið sekari en allt sem sekt er, en á það hafa engar sönnur verið færðar. Og meðal annars af þeim ástæðum er ekki allt gott og blessað í framgöngu þessa fjölmiðils.
Ekki er langt síðan breskt blað tók upp á því að birta nöfn manna sem einhvern tíma höfðu verið dæmdir fyrir brot gegn börnum. Var það sagt gert til þess að fólk gæti verið á varðbergi og gætt barna sinna fyrir þessum mönnum enda væri hætta á því að þeir brytu af sér að nýju. Eftir þessar birtingar kom í ljós að margir létu sér ekki nægja að vera á verði heldur réðust að þessum mönnum, hvernig svo sem þeir höfðu lifað lífi sínu eftir að afplánun lauk. Og það sem enn verra var, fólk tók stundum feil og réðst á ranga menn. Blásaklausir menn urðu að fara huldu höfði meðan múgurinn braut rúður, kveikti í bifreiðum og málaði ókvæðisorð og heitingar á húsveggi. Í þeim tilfellum var ráðist að saklausum mönnum sem aldrei höfðu fengið nokkurn dóm eða gert flugu mein svo vitað væri. Þar að auki er óþarfi að loka með öllu augunum fyrir því að því miður er það nú varla svo allir þeir sem sakfelldir eru hafi í raun verið svo sekir sem dómurinn taldi. Og fjölmiðlar eru auk þess ekki allra aðila nákvæmastir í nafnbirtingum, eins og tíðar leiðréttingar þeirra myndu vitna skýrar um ef þær væru ekki jafnan birtar með sjöpunktaletri neðst á blaðsíðu þrjátíuogeitt.
Setjum sem svo – og nú er rétt að ítreka að Vefþjóðviljinn veit lítið sem ekkert um málavexti – að sá sem nú situr í gæsluvarðhaldi sé í raun saklaus; að hann sé borinn röngum eða stórlega ýktum sökum. Hvað þá? Hvernig í ósköpunum ætti hann að heimta aftur það mannorð sem hvarf á dagblaðsforsíðu á dögunum? Ef niðurstaða rannsóknar málsins verður á endanum sú að ekki sé tilefni til ákæru, hvað þá? Þá stendur eftir forsíðumyndin af manni, sem engin sök hefur þó verið sönnuð á og sem fær aldrei færi á að hreinsa nafn sitt. Gæsluvarðhaldsúrskurður er engin sönnun fyrir sekt manns enda hugsaður sem rannsóknarúrræði, sem vissulega getur verið nauðsynlegt að grípa til svo rannsaka megi mál til fulls. Maður sem situr í gæsluvarðhaldi er talinn saklaus en ekki sekur um það sem hann er grunaður um. Fjölmörg dæmi eru um að menn hafi setið í gæsluvarðhaldi án þess að í máli þeirra hafi síðar komið til ákæru eða þá sakfellingar. Um það eru meðal annars dæmi, sem flestir landsmenn munu kannast við, að menn hafi setið saklausir í löngu gæsluvarðhaldi grunaðir um hvorki meira né minna en manndráp. Ef marka má frásagnir þeirra sjálfra bera þeir þess enn merki, nú áratugum síðar. Og eins og ýmsir muna þá fóru ákveðnir fjölmiðlar mikinn á þeim tíma.
Nú má vel vera að sakir sannist á þennan mann og hann hljóti þann dóm sem brot hans og aðrar aðstæður kalla þá á. Þá er það bara þannig og ekkert við því að segja að hann beri með þeim hætti ábyrgð á gerðum sínum. En fram að því mættu menn hugsa sig aðeins um áður en þeir reiða til höggs.