Föstudagur 12. desember 2003

346. tbl. 7. árg.
Þar er þeim fyrrverandi alþingismönnum sem setið hafa á Alþingi samtals 16 ár eða lengur, fjögur kjörtímabil eða lengur, gefinn kostur á að hverfa af vettvangi stjórnmála án þess að leita sér nýrra starfa og fá greidd eftirlaun nokkru fyrr en áður hefur tíðkast. Megin röksemdin að baki þessu ákvæði er að stuðlað verði að hóflegri endurnýjun í stjórnmálum þannig að þeir sem varið hafa drjúgum hluta ævi sinnar til stjórnmálastarfa geti horfið af vettvangi og búið við fjárhagslegt öryggi að einhverju marki, en þurfi ekki að lengja þingsetu sína fram yfir það aldursmark sem nú dugar til eftirlaunaréttinda.
 – Úr greinargerð með „þingmannafrumvarpi“ um um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.
Það varpar nýju ljósi á taumlausa eyðslu ríkisins undanfarin ár að ekki er vaninn að þingmannafrumvörpum fylgi kostnaðaráætlun.

Það var jafn gott að Stekkjastaur kom ekki í bæinn fyrr enn í dag því í gær virtist það lögmál að opinberar fígúrur yrðu að athlægi. Fimm þingmenn lögðu fram „þingmannafrumvarp“ um eftirlaunamál ráðherra og fleiri fyrirmenna. Enginn þingmannanna fimm hefur þó gengist við því að hafa samið þingmannafrumvarpið, það virðist hafa fallið af himnum ofan og að minnsta kosti tveir flutningsmannanna sáu frumvarpið sitt ekki fyrr en nokkrum klukkustundum áður en það var lagt fram. Það hefur samt verið í undirbúningi í mörg ár ef marka má orð forsætisráðherra. Fyrir hönd stuðningsmanna frumvarpsins mætti Pétur Blöndal þingmaður í Kastljós Ríkissjónvarpsins, en aðrir stuðningsmenn frumvarpsins voru meira og minna í felum í gær, og sagðist styðja frumvarpið en hann vissi ekki hvað það kostaði eða hvort það kostaði eitthvað yfirleitt. Fullyrti Pétur að nær aldrei væri reiknaður kostnaður sem „þingmannafrumvörp“ gætu haft í för með sér! Viðmælanda sínum í sjónvarpssal sagði Pétur bara að reikna kostnaðinn sjálfur. Enda eru það skattgreiðendur en ekki þingmenn sem bera kostnaðinn svo þingmönnum kemur kostnaður af þingmannafrumvörpum ekki við.

Opinberir starfsmenn hafa fengið ofboðslegar launahækkanir á síðustu árum. Alþingismenn eru þar engin undantekning. Þessar kjarabætur eru langt umfram það sem aðrir hafa notið. Því til viðbótar hafa þeir mun ríflegri lífeyrisrétt en þeir sem greiða launin þeirra. Meðal annars vegna þessara einstæðu launahækkana hafa ríkisútgjöldin aukist sem aldrei fyrr og helsta afleiðingin af því er að ekki hefur verið talið hægt að lækka tekjuskatt á almenning. Báðir stjórnarflokkarnir lofuðu hins vegar skattalækkunum fyrir kosningar í vor. Hvað eftir annað kom fram í kosningabaráttunni að skattalækkanirnar myndu nema um 20 milljörðum króna. Loforð Framsóknarflokksins voru tæplega 20 milljarðar en Sjálfstæðisflokksins ríflega. Nú hafa flokkarnir að mestu afboðað þessar skattalækkanir og segja þær muni nema um 6 til 7 milljörðum króna síðar á kjörtímabilinu. Til að leggja áherslu á að þeim er alvara að svíkja skattalækkunarloforðin hækkuðu þeir gjöld á eldsneyti og lögðu sérstakan tekjuskatt á að nýju. Sveitarfélögin munu svo strá salti í sárin þegar þau senda íbúum sínum rukkun fyrir hærri fasteignagjöldum í byrjun nýs árs. Íbúar Kópavogs fá einnig óvænt að leggja aukið fé í tóman bæjarsjóðinn með hærra útsvari.

Að leggja til hækkun á launum sumra þingmanna og festa í sessi og búa til fleiri sérreglur um eftirlaun ráðherra og starfslok þeirra og þingmanna við þessar aðstæður er vissulega staðfesting á því að skattar hér munu áfram ráðast af því hvað opinberir starfsmenn telja sig þurfa. Það er ekki einu sinni haft fyrir því að reikna út hvað ný sérréttindi opinberra starfsmanna eiga að kosta þótt unnið hafi verið að þeim árum saman. Þeir skulu fá sitt. Hvað verður eftir í launaumslögum annarra er algjört aukaatriði.

Í vor varð mikil endurnýjun á Alþingi Íslendinga. Inn á þingið streymdu ungir menn sem aldrei fyrr. Það virðist því alls engin þörf á nýjum lögum sem ýta undir endurnýjun. Og er það ekki þvert á markmiðið um endurnýjun ef það er ódýrara fyrir kjósendur að hafa gömlu þingmennina áfram í stað þess að skipta þeim út fyrir nýja og hafa þá gömlu áfram á launaskrá? Þingmenn eru heldur ekki þeir einu sem missa vinnuna. Menn missa vinnuna á hverjum degi án þess að það kalli á þingmannafrumvarp sem enginn hefur samið, enginn veit hvað kostar og enginn þorir að rökstyðja opinberlega en þingheimur hefur hins vegar sameinast um að gera að lögum með hraði.