Rithöfundalaunum svonefndum hefur verið úthlutað þetta árið og það er þegar byrjað að efna til deilna. „Ríkið segir upp fremstu rithöfundum þjóðarinnar“ segir DV í fyrirsögn og segir að þau „stórtíðindi“ hafi orðið að úthlutunarnefnd rithöfundalauna, „skipuð af menntamálaráðherra“ eins og DV bætir við, hafi hafnað „nokkrum af vinsælustu rithöfundum þjóðarinnar“ og mun höfnunin felast í því að nokkrir tilteknir rithöfundar verða nú aðeins á ríkislaunum í hálft ár en ekki heilt. Sumir þessara rithöfunda munu hafa verið á ríkislaunum árum saman, jafnvel meira en áratug samfleytt en að sögn DV eru hinir og þessir ónafngreindir rithöfundar „æfir“ yfir hinni nýju úthlutun.
Um þetta er eitt og annað að segja og þá kannski fyrst að vekja athygli á orðalagi DV sem segir lesendum sínum skýringalaust að úthlutunarnefndin sé „skipuð af menntamálaráðherra“, svo þeir sem ekki vita betur halda náttúrlega að nú hafi pólitíkus verið að stjórna úthlutunum. Ekki er hins vegar minnst á það í blaðinu að þriggja manna stjórn hefur umsjón með þeim sjóðum sem starfslaun listamanna eru veitt úr, og meirihluti þeirrar stjórnar er skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka listamanna og Listaháskóla Íslands. Stjórnvöld hafa nefnilega fært þessi völd frá stjórnmálamönnum með þessum hætti – hvort sem það er nú eðlilegt eða ekki, svona fyrst verið er að úthluta opinberu fé.
En látum það vera. Einhverjir eru óánægðir með úthlutunina aldrei þessu vant og það er reynt að finna safaríkar skýringar, eða að minnsta kosti einhverjar skýringar. Hallgrímur Helgason, einn þeirra sem „sagt var upp“ með því að vera veitt hálfsárslaun, giskar svona á að kannski „skýri margt að ég skrifaði grein gegn Ástráði þegar hann var með bókmenntagagnrýni í Dagsljósi“ og vísar Hallgrímur þar til Ástráðs Eysteinssonar, eins þriggja manna í úthlutunarnefndinni. Með honum í nefndinni eru svo Ármann Jakobsson íslenskufræðingur, sem er formaður, og Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrverandi alþingismaður Kvennalistans. Það er dálítið gaman að líta á hverjir sitja í nefndinni. Hugsi menn sér nú að í nefndinni hefðu í stað þessara setið menn eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson eða aðrir slíkir, en úthlutun orðið nákvæmlega eins. Ætli menn hefðu verið lengi að sjá úthlutunina í pólitísku ljósi, finna eitthvað sem einhver, sem nú fær minna en áður, hefði skrifað eða sagt um Hannes eða flokksbræður hans og draga af því miklar ályktanir með tilheyrandi stóryrðum? Ætli það ekki bara.
En nú kemur ekkert slíkt og ekki dettur Vefþjóðviljanum í hug að velta því fyrir sér hvort vera kunni að þeir sem hæsta úthlutun hlutu kunni að vera skoðanasystkini eða baráttufélagar einhverra í úthlutunarnefndinni. Þó svo kunni auðvitað að vera, þá þarf alls ekki að vera að fólk láti slíkt ráða ákvörðunum sem þessum. Úthlutun eins og kynnt hefur verið hefði sem best getað komið frá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni eða mönnum á hans væng stjórnmálanna. Málið er einfaldlega, að samsæriskenningar – og þá einkum þær sem haldið er fram af sem mestri festu – eru miklu oftar en margir halda, gersamlega rangar.
Að þessu öllu sögðu má vitaskuld bæta við því sem augljósast alls er. Vefþjóðviljinn er andvígur því að skattgreiðendum sé gert að greiða laun sem þessi. Um þessi útgjöld eins og svo fjölmörg önnur gildir það sama – að mati blaðsins – að fremur eigi að lækka álögur á borgarana sem þá verða sjálfráða um fé sitt og geta nýtt það eftir eigin þörfum og löngunum og þá greitt hærra verð en þeir geta nú. Og þar með getur ýmis starfsemi borið sig styrkjalaust þó menn treysti henni ekki til þess í dag.