VGLOGOIDÞað er vafalaust til margar góðar ástæður fyrir því að menn lýsa yfir stuðningi við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og þarf þá jafnvel ekki að grípa til þeirrar röksemdafærslu að flokkurinn ber þjált og gott nafn sem gæti sem best hafa verið sett saman af „kerlingum á háskólalóðinni“. Ein ástæða virðist þó henta flestum. Samkvæmt skoðanakönnunum um þessar mundir nýtur flokkurinn fylgis tæplega 20% landsmanna, sem er tvöföldun frá kosningunum síðasta vor. Eftir kosningar 1999 naut flokkurinn sömuleiðis mikils fylgis í skoðanakönnunum. Það er því deginum ljósara að flestir sem á annað borð lýsa yfir stuðningi við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð telja það einkum óhætt þegar langt er til næstu kosninga.
George Bush forseti Bandaríkjanna hóf kosningabaráttu af sinni hálfu í gær með birtingu sjónvarpsauglýsinga. Eins og við var að búast voru hin og þessi samtök tilbúin með gagnrýni á það að meðal svipmynda sem brugðið var upp voru myndir af árásunum á Bandaríkin hinn ellefta september 2001. Það þykir víst svo ósmekklegt, að sýna slíkan atburð í pólitísku skyni og hinir og þessir fjölmiðlar í Evrópu munu segja frá þessu með óbragð í munninum. – Næst munu þeir líklega láta frá sér heyra af sömu tilfinningu þegar einhver, sem vill leggja áherslu á sjónarmið sín í afvopnunarmálum birtir mynd af svepplaga skýi yfir japanskri borg. Þá munu þeir einmitt telja það „ögrun við þá sem misstu ættingja í Hirosima“. Eða er það ekki næstum öruggt?