Föstudagur 10. nóvember 2000

315. tbl. 4. árg.

Í Degi í gær ritaði Elías Snæland Jónsson leiðara um bandarísku þing- og forsetakosningarnar og hneykslaðist á „óheyrilegum fjáraustri“ en líklega fóru um 350 milljarðar íslenskra króna í kosningaslaginn þ.e. til forseta og þings. Þetta gera um 1.200 krónur á hvert mannsbarn í Bandaríkjunum. Já, ljótt ef satt er. Til samanburðar mætti af handahófi taka kostnað Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar og Ólafs Ragnars Grímssonar til embættis forseta fyrir fjórum árum. Þar sem bókhald Samfylkingarinnar er opið að hætti vinstri manna (sem þýðir lokað á tungutaki hins venjulega manns) og Ólafur Ragnar hefur ekki enn staðið við það kosningaloforð sitt að leggja bókhald kosningabaráttu sinnar fram verður Vef-Þjóðviljinn að láta sér nægja að giska á að fylkingin hafi eytt 50 milljónum króna í þingkosningarnar (fyrir utan útgáfukostnað Dags) og Ólafur 40 milljónum króna í forsetaslaginn. Fylkingin fékk 27% atkvæða og má því segja að hún hafi eytt um 660 krónum á hvert mannsbarn í þeim hluta þjóðarinnar sem studdi hana. Um Ólaf, sem einnig naut stuðnings minnihluta þjóðarinnar, má segja að hann hafi eytt 320 krónum á mann. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir gengisbreytingum dollars frá því kosningarnar fóru fram hér má í raun segja að eyðsla Samfylkingarinnar og Ólafs Grímssonar á mann í þing- og forsetakosningum hér hafi verið svipuð og eyðslan í þing- og forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Elías Snæland sagði einnig að „tilraunir til að hemja þennan fjáraustur [í Bandaríkjunum] hafi gjörsamlega mistekist“. Á meðan Dagur kemur út má vissulega einnig segja að íslenskum vinstrimönnum hafi gjörsamlega mistekist að hemja fjárausturinn í pólitískan áróður sinn.

Það er siður hjá evrópskum menntamönnum að tala af yfirlæti um Bandaríkin. Grein Jóns Ólafssonar í helgarblaði DV um síðustu helgi er ágætt dæmi um þennan ávana en þar var spurt í fyrirsögn hvort George W. Bush væri ekki „fífl“. Jón svaraði þeirri spurningu svo játandi í greininni. Það fer þess vegna vel á því að gáfumennirnir sem studdu Al Gore í kosningunum komi nú fram í röðum og segi ýmist að þeir hafi kosið Pat Buchanan í misgripum fyrir Gore eða óvart kosið bæði Buchanan og Gore!