Fyrir nokkrum dögum var maður dæmdur til 9 ára vistar á Litla-Hrauni fyrir vapp með ólögleg fíkinefni um flugstöð Leifs Eiríkssonar. Maðurinn millilenti hér á leið sinni til Bandaríkjanna, kom þó ekki formlega inn í landið og var á leið af landi brott með efnin þegar vaskir laganna verðir gripu hann glóðvolgan. Í samvinnu við þing og dómstóla bjóða þeir honum frítt uppihald og frelsisskerðingu á kostnað íslenskra skattgreiðenda í 9 ár. Sá kostnaður skiptir vafalítið tugum milljóna króna. Erfitt er að koma auga á fórnarlamb hins dæmda manns en líklega líta einhverjir svo á að væntanlegir kaupendur efnanna í Bandaríkjunum (til dæmis götusölumenn úr glæpaklíkum bandarískra stórborga) séu fórnarlömbin og er það nokkuð sérstakt samband glæpamanns og fórnarlambs þegar fórnarlambið reiðir fram fé til að láta brjóta á sér. Í raun eru þó ekki önnur fórnarlömb í þessu máli en meintur afbrotamaður og íslenskir skattgreiðendur sem þurfa að sjá honum farborða og eru í raun dæmdir í nauðungarvinnu fyrir fæði og húsnæði manns sem enginn þeirra hafði nokkru sinni séð eða heyrt þegar íslenskir laganna verðir ákváðu að sanna sig í starfi og koma í veg fyrir að maðurinn gæti tekið áskorun stjórnvalda um að gera Ísland fíkniefnalaust fyrir árið 2001.
Fimmtudagur 9. nóvember 2000
314. tbl. 4. árg.