Þriðjudagur 8. ágúst 2000

221. tbl. 4. árg.

Evrópusambandið er þekkt fyrir að draga lappirnar þegar kemur að frjálsum viðskiptum og ef það leyfir viðskipti á annað borð eru þau njörvuð niður með reglugerðum og stöðlum. Frá því var sagt í Washington Post á dögunum að eftir að ESB setti strangar reglur um pylsugerð þurfa Ítalir að koma saman í skjóli myrkurs til að snæða kryddpylsur sem framleiddar eru í blóra við reglugerðir frá Brussel ásamt tilheyrandi ólöglegu fersku pasta og ostum. Og það er vissara fyrir Ítalina að leifa engu því afgöngum þarf að farga eftir kúnstarinnar reglum frá ESB.

Ítalir eru hræddir um að þegar búið verður að staðla alla matargerð muni ítölsk matargerðarlist glata aðdráttarafli sínu fyrir ferðamenn. Jafnvel sykurkörin á kaffihúsunum hafa verið stöðluð. Ítalir segja að í um 80% ítalskra fyrirtækja starfi innan við 15 menn en reglurnar frá ESB séu miðaðar við stórfyrirtæki í matvælaiðnaði sem hafi efni á því að vera með sérstaka starfsmenn í því að framfylgja reglunum.

CATO Institute hefur gefið út bókina Global Fortune: The Stumble and Rise of World Capitalism. Í bókinni svara höfundar frá fjórum heimsálfum þeirri gagnrýni sem aukið frelsi í viðskiptum milli landa hefur mátt sæta að undanförnu þrátt fyrir að kapítalisminn hafi bætt lífskjör manna meira en nokkurn óraði fyrir.