Miðvikudagur 9. ágúst 2000

222. tbl. 4. árg.

Eftir baráttu félagsmanna í Heimdalli gegn því að álagningar- og skattskrár séu lagðar fram hefði mátt ætla að svör fengjust við því hvers vegna þessar skrár eru yfirleitt birtar. Það hefur þó staðið á þessum svörum. Ágúst Einarsson prófessor í viðskiptafræðum muldraði eitthvað um það í Ríkisútvarpinu um helgina að með þessu sæist hvað menn legðu til samfélagsins. Þó upplýsa þessar skrár aðeins um lítinn hluta þeirra skatta sem menn greiða enda er tekjuskattur ekki helsta tekjulind ríkisins. Ef Ágúst Einarsson telur eðlilegt að það sjáist hvað menn leggja til samfélagsins ætti hann að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja fram kortareikninga sína til að hægt sé að kanna hve mikla neysluskatta hann greiðir og einnig bankabækur og hlutabréf svo við hin getum séð hve ríkulega hann leggur til samfélagsins með greiðslu fjármagnstekjuskatts. (Í leiðinni gæti hann upplýst hvort það er hagstæðara að leggja fram hlutafé í útgáfu Dags til að fá jákvæða umfjöllun eða bara hreinlega kaupa auglýsingapláss undir hana.)

En það er ekki nóg með að tekjuskatturinn segi aðeins litla sögu um hvað menn leggja til samfélagsins brúttó. Þegar allar endurgreiðslur, bætur og styrkir frá ríkinu hafa verið dregin frá blasir oft við gjörbreytt mynd nettó. Stór hluti af tekjuskattinum er endurgreiddur sem bætur og styrkir. Þess vegna þarf auðvitað að birta lista yfir alla sem fá bætur og hve mikið hver og einn fær.

Vef-Þjóðviljinn veit að hann getur treyst Ágústi til að fylgja sannfæringu sinni í þessu máli og að kortareikningar hans og arðgreiðslurnar frá Degi verða birt í Degi innan tíðar. Vef-Þjóðviljinn ber þetta mikla traust til Ágústar eftir að hann lagði fram lagafrumvarp á Alþingi þess efnis að starfsmenn fyrirtækja eigi að fá sæti í stjórnum þeirra óháð eignarhlut. Ágúst hefur þó því miður ekki séð sér fært að víkja sjálfviljugur úr stjórn Granda til að rýma fyrir fulltrúa starfsmanna.