Sérhagsmunapot í nafni umhverfisverndar er að verða jafn algengt hér á landi og í ýmsum öðrum löndum. Þrýstihópar sjá aukin færi á því að herja út fé af almenningi með því að flagga umhverfisvernd í erindum sínum til hins opinbera. Í maí sendi félagið Landvernd Reykjavíkurborg erindi þar sem farið var fram á að borgin greiði félaginu fyrir að sannfæra borgarbúa um ágæti hugmyndafræði sinnar. Í stuttu máli vill Landvernd að borgin greiði sér fyrir að mynda svonefnda visthópa með 5-8 fjöldskyldum og boða endurvinnslufagnaðarerindið yfir þeim á sérstökum fundum. Nefnist þessi innræting Global Action Plan.
Í erindi Landverndar sagði m.a.: „Global Action Plan eða Vistvernd í verki hefur verið að festa rætur í fjölmörgum löndum frá árinu 1989 og nú er röðin komin að Íslandi. Þetta er áætlun fyrir heimili og einstaklinga til að taka upp vistvænt heimilishald og minnka álagið á náttúruna og umhverfið. Með einföldum breytingum á daglegu lífi má gera lífsstíl vistvænni án þess að draga úr lífsgæðum. Með víðtækri þátttöku í slíkum aðgerðum má ná miklum fjárhagslegum og umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið. Reynslan sýnir að vistvænir lífshættir leiða til fjárhagslegs sparnaðar; fyrir samfélagið í heild, fyrir sveitarfélögin og þær fjölskyldur sem í hlut eiga.“
Það vekur nokkra furðu að verkefni sem fullyrt er að sé svo fjárhagslega hagstætt fyrir þær fjölskyldur sem í hlut eiga skuli þurfa stórfelldan stuðning frá hinu opinbera. Hvers vegna leitar Landvernd ekki beint til fjölskyldna í Reykjavík og býður þeim upp á námskeið í „vistvænum“ lífsstíl og heimilishaldi? Ef að það er rétt sem Landvernd fullyrðir að slík námskeið leiði til fjárhagslegs sparnaðar hljóta menn að flykkjast á námskeiðin. En Landvernd hefur ekki meiri trú á eigin boðskap en svo að hún hyggst rukka Reykjavíkurborg um eftirfarandi: Handbók um Vistvernd í verki kostar 2.000 kr. Þjálfun staðbundins stjórnanda kostar 80.000 kr. auk greiðslu fyrir ferðir og uppihald. Greiðsla fyrir ferðir og uppihald vegna árlegra heimsókna sérfræðinga. Leiðbeinendanámskeið kostar 100.000 kr. auk greiðslu fyrir ferðir og uppihald. Árleg greiðsla fyrir almenna þjónustu Landverndar er 25.000 kr. auk 10. kr. fyrir hvern íbúa í viðkomandi sveitarfélagi.
Auðvitað má segja að þetta verkefni Landverndar verði ekki það sem ríði Reykjavíkurborg að fullu og kostnaðurinn við það eitt og sér verði ekki svo mikill að hans sjái verulega stað í útsvörum borgarbúa. Engu að síður hljóta borgarbúar að ætlast til þess að borgaryfirvöld hafni þessu furðuerindi. Það eru öll þessi samanlögðu „góðu mál“ sem hafa valdið því að hið opinbera, ríki og stærstu sveitarfélög, eru stórskuldug þrátt fyrir að innheimta gríðarlega skatta af þegnum sínum. Mikilvægt er að þessum „góðu málum“ verði fækkað hratt. Með því næðist mikill sparnaður auk þess sem heimtufrekum áhugamönnum yrðu send ákveðin skilaboð þess efnis að í framtíðinni væri ætlast til þess að þeir létu skattgreiðendur í friði.