Nú í vor voru liðin 30 ár frá því fyrst var haldið upp á svonefndan Dag jarðar (Earth Day) í Bandaríkjunum. Að því tilefni rifjaði Ronald Bailey upp nokkrar heimsendaspár umhverfisverndarsinna í grein í tímaritinu Reason:
„Mannfjöldinn mun óhjákvæmilega eta upp til agna hverja aukningu í fæðuframleiðslu“, sagði líffræðingurinn Paul Ehrlich árið 1970. „Heimsmarkaðsverð á hveiti, korni og hrísgrjónum er það lægsta í sögunni“, sagði International Food Policy Research Institute í október 1999.
„Innan áratugar munu íbúar í úthverfum stórborga þurfa að nota gasgrímur til að lifa af loftmengun“, sagði í tímaritinu Life í janúar 1970. „Frá 1970 hefur íbúum Bandaríkjanna fjölgað um 29%… farartæki fara nú 121% lengri vegalengd en þá. Á sama tíma varð merkjanleg lækkun á styrk mengunarefna í lofti og útblæstri“, sagði Umhverfismálastofnun Bandaríkjanna, EPA, 1998.
„Með sama áframhaldi mun engin olía verða eftir árið 2000“, sagði vistfræðingurinn Kenneth Watt árið 1970. Í U.S. Geological Survey 1999 er gert ráð fyrir að hráolíubirgðir séu 2,1 trilljón tunna, sem nægir til að anna eftirspurn næstu 90 árin miðað við núverandi notkun í heiminum.
„Innan 25 ára munu 70 til 80% allra núlifandi dýrategunda verða útdauðar“, sagði Gaylord Nelson öldungardeildarþingmaður í apríl 1970. „Skráð útrýming á dýrategundum náði hámarki á fjórða áratugnum og hefur dregið úr henni síðan“, sagði Stephen Edwards vistfræðingur hjá World Conservation Union 1994.
Það er líka niðurstaða greinar Ronalds Baileys að full ástæða sé til að fagna á 30 ára afmæli Dags jarðar vegna þess að heimsendaspámennirnir hafi haft svo rangt fyrir sér.
Þegar Ludwig von Mises flúði frá Austurríki árið 1938 skildi hann eftir sig ýmis ritverk sem hann hélt að væru glötuð. Skjölin höfðu hins vegar verið gerð upptæk af Gestapo og síðar sovésku leyniþjónustunni. Þau fundust árið 1994 í skjalgeymslum í Moskvu. Liberty Fund bókaútgáfan hefur nú hafið útgáfu á þessum verkum í þriggja binda safni. Liberty Fund hefur einnig hafið útgáfu á verkum James M. Buchanan Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Sem fyrr er um vandaða útgáfu að ræða hjá Liberty Fund en engu að síður afar hagstætt verð.