Þriðjudagur 8. desember 1998

342. tbl. 2. árg.

Svonefnd stjórnunarfræði hafa verið í tísku undanfarin ár. Hingað hafa til dæmis komið erlendir fyrirlesarar og kennt íslenskum framkvæmdastjórum á klukku og dagbók fyrir segjum 15 – 24 þúsund kall á mann á hádegisverðarfundi. Hitt er svo líka til að íslenskar uppfinningar eins og vinnuumhverfi starfsmanna 118 á Landsímanum hafi slegið í gegn og orðið fyrirmynd hjá framsæknum fjármálafyrirtækjum. Eitt hefur þó sennilega einkennt þessa stjórnunarspeki öðru fremur. Það er hið mikla álit stjórnunarspekinganna á austurlenskum, einkum japönskum, aðferðum. Vart er til sú bók um stjórnun sem hefst ekki á  málshætti austurlenskra vitringa, helst einhverra sem voru uppi löngu fyrir daga iðnvæðingarinnar og þeirra framleiðslufyrirtækja sem henni fylgdu.

Annar angi af þessari austurlandadýrkun fólst í hrifningu manna af japönsku efnhagslífi. Fyrir nokkrum árum skorti til dæmis ekki spádóma um að Japanir myndu stinga Bandaríkjamenn af á öllum sviðum efnahagsmála. Því var haldið fram að Bandaríkjamenn ættu að taka upp einhvers konar „leiðsögn“ ríkisins á markaðnum að hætti Japana í stað þess að treysta á ákvarðanir stórra sem smárra fyrirtækja úti á markaðnum. Clyde Prestowitz var einn af viðskiptasamningamönnum bandaríkjastjórnar á Reagan tímabilinu. Hann ritaði bókina Trading Places: How We Are Giving Our Future to Japan and How to Reclaim It. Þar sagði hann meðal annars: „Aflið í japanska stórveldinu er meira en flesta Bandaríkjamenn órar fyrir. Stórveldið er óstöðvandi enda hafa Japanir búið til einskonar sjálfvirka auðlegðarvél, ef til vill hina fyrstu frá dögum Midasar.“

Nú er það rétt að Japönum hefur tekist margt vel en „leiðbeinandi“ samkrull ríkis, fjármálafyrirtækja og framleiðslufyrirtækja hefur leitt til stöðnunar á síðustu árum. Við það hefur dregið úr þessari dýrkun á japönsku efnahagslífi og stjórnunaraðferðum. Þess verður þó væntanlega skammt að bíða að menn finni sér nýja fyrirmynd. Bæði þeir sem þurfa spakmæli í stjórnunarbækur og eins hinir sem vilja að ríkið „leiðbeini“.

Framsóknarflokkurinn auglýsti „fólk í fyrirrúmi“ fyrir síðustu kosningar. Nú er fólkið hins vegar „með (eitthvað) á miðjunni“. Kristinn H. Gunnarsson fyrrum þingmaður Alþýðubandalagsins lét ekki segja sér það tvisvar og sagðist í fréttum í gær hafa fylgt straumnum inn á miðjuna og gekk í Framsóknarflokkinn.