Samkvæmt fréttum Ríkissjónvarpsins á föstudaginn taldi Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna útsölu á raftækjum úr þrotabúi Radíóbúðarinnar árás á neytendur. Í fréttinni sagði svo: Formaður Neytendasamtakanna segir aðra útsölunna á þrotabúi Radíóbúðarinnar árás á neytendur. Vörurnar séu seldar án ábyrgðar og slíkir verslunarhættir séu algjörlega í andstöðu við þróun neytendaréttar í öllum hinum vestræna heimi. Hann efast um þá lagatúlkun Samkeppnisstofnunnar að þetta sé heimilt og vill að útsalan verði stöðvuð þegar í stað.
Vef-Þjóðviljinn hefur áður bent á og rökstutt að málflutningur formanns Neytendasamtakanna er neytendum oft í óhag. Hann treystir neytendum jafnvel ekki til að kaupa sér GSM síma af því að svo mörg tilboð eru í gangi hjá símafyrirtækjunum! Formaðurinn er oft hallur undir forsjárhyggju af þessu tagi sem hann nefnir gjarna neytendavernd. Að þessu sinni telur Vef-Þjóðviljinn sig þó ekki þurfa að rökstyðja mál sitt frekar. Þegar formaður Neytendasamtaka er á móti því að fólk geri kaup á útsölum sem það telur sér til hagsbóta er það óþarft. Jóhanneshefur alfarið tekið ómakið af Vef-Þjóðviljanum að þessu sinni.
Þessar vikurnar berast reglulega af því fréttir að ýmis iðn- og sjávarútvegsfyrirtæki hérlendis séu hætt að nota orku frá rafmagnsveitum landsins og notist við olíu. Einstaka fyrirtæki hefur hætt framleiðslu um hríð á meðan rafmagn er svo dýrt sem raun ber vitni. Það kann að hljóma fjarstæðukennt að það sé ódýrara að nota olíu (sem borað hefur verið eftir, pumpað hefur verið upp úr jörðinni, hún eimuð og efnabætt og flutt langan veg til Íslands) til orkuframleiðslu en að stinga í samband hjá rafveitunum sem fá orku úr fallvötnum landsins. Ekki síst þegar það er haft í huga að olíubirgðir hafa samkvæmt fréttum síðustu áratugina verið að ganga til þurrðar eins og aðrar auðlindir og olíuverð ætti því að hafa hækkað verulega. Olíuverð hefur þó ekki verið lægra um árabil enda mikil samkeppni milli olíuframleiðenda. Sömu sögu er að segja af verði á mörgum öðrum auðlindum sem heimsendaspámenn eru sífellt að segja okkur að séu að klárast.
Fáar sögur fara hins vegar af verðlækkunum á hinu opinbera einokunarrafmagni okkar Íslendinga þótt alltaf sé verið að minna okkur á að um endurnýjanlega auðlind sé að ræða og hún sé langt frá því að vera fullnýtt. Nauðsyn þess að einkavæða orkufyrirtæki ríkis og sveitarfélaga og hleypa að samkeppni á þessu sviði er því orðin hrópandi. Pólítíkusum gengur ekkert betur að reka orkufyrirtæki en önnur fyrirtæki. Og ekki minnkaði þessi þörf eftir borgarstjórn ákvað að fara ránshendi um orkufyrirtæki borgarinnar og veðsetja þau fyrir milljarða í stað þess að lækka orkureikninga borgarbúa.