Síðastliðinn föstudag bar það til tíðinda, að handhafar forsetavalds gáfu út bráðabirgðalög um breytingu á sveitarstjórnarlögum, sem samþykkt voru á Alþingi í vor. Bráðabirgðalögin fólu í sér þá breytingu eina, að gildistökuákvæði sveitarstjórnarlaganna orðast svo: Lög þessi öðlast þegar gildi. Felur það í sér að sveitarstjórnarlögin öðluðust gildi strax og bráðabirgðalögin höfðu verið birt með lögformlegum hætti.
Setning þessara bráðabirgðalaga felur í sér að eytt er réttaróvissu sem stafaði af því að gamla gildistökuákvæðið í sveitarstjórnarlögunum var 1. júní 1998, jafnvel þótt lögin hefðu ekki verið birt með lögformlegum hætti fyrr en 5. júní 1998. Þetta skapaði vandamál, enda er það ótvíræð regla í íslenskum rétti að ekki má beita lögum fyrr en þau hafa verið birt og ef vafi leikur á um gildtökutímann skulu líða 3 mánuðir frá birtingu þangað til hægt er að beita lögunum. Dr. Páll Sigurðsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, benti á þetta í grein í Morgunblaðinu fyrir stuttu og er greinilegt að bráðabirgðalögin nú eru viðbrögð við skrifum hans.
Nú er greinilegt að mál þetta má rekja til mannlegra mistaka og tæpast verður talið að um stórmál sé að ræða. Mannleg mistök eiga sér og í þessu tilviki er engin sérstök ástæða til að leita sökudólga í því sambandi, hvort sem um er að ræða óaðgæslu þingmanna, starfsmanna Alþingis, félagsmálaráðherra eða starfsmanna ráðuneytisins. Það var hins vegar hvorki málefnalegt né stórmannlegt hvernig félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, brást við rökstuddri gagnrýni Páls Sigurðssonar. Ráðherrann vísaði gagnrýninni á bug, greinilega án þess að hafa gert tilraun til að kynna sér málavexti eða lagasjónarmið í þessu sambandi, og hélt því fram að sjónarmið prófessorsins mótuðust af ofstæki og andúð í garð hinna nýju sveitarstjórnarlaga. Ráðherrann var einkar illyrtur í garð prófessorsins og er ljóst að hann hefur þurft að kyngja stórum bitum áður en skrifaði undir bráðabirgðalögin ásamt handhöfum forsetavalds, því með þeim er staðfest að hann hafði fullkomlega rangt fyrir sér en ábendingar prófessorsins voru réttmætar.