Fimmtudagur 16. júlí 1998

197. tbl. 2. árg.

Matthías Bjarnason fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sendi Þorsteini Pálssyni tóninn á fundi sem Sverrir Hermannsson hélt á Ísafirði í vikunni. Sagði Matthías Þorstein ekki hafa gert neitt í ráðherratíð sinni. Var greinilegt að Matthías telur fátt skammarlegra fyrir ráðherra en að aðhafast lítt. Ef það er rétt hjá Matthíasi að núverandi sjávarútvegsráðherra hafi haldið sig til hlés í sínum málaflokki undanfarin ár mættu fleiri ráðherrar sennilega taka sér það til fyrirmyndar enda hefur sjaldan verið meiri uppgangur í íslenskum sjávarútvegi en einmitt nú. Og það þótt farið sé að varfærnum tillögum fiskifræðinga um afla. Fara helstu fiskistofnar því vaxandi. Er það annað en í ráðherratíð Matthíasar á árunum 1974 – 1978 en þá var lítt skeytt um viðvaranir fiskifræðinga um að fiskistofnarnir væru ofnýttir. Árið 1977 var skrapdagakerfið tekið upp en það leiddi til offjárfestingar og dró ekki úr sókn í ofnýtta stofna. Fer ekki á milli mála að landsmenn, ekki síst Vestfirðingar, eru enn að súpa seyðið af afreksverkum sjávarútvegsráðherrans Matthíasar Bjarnasonar.

Samgönguráðherratíð Matthíasar á árunum 1983- 1987 varð landsmönnum ekki síður dýrkeypt. Á þessum árum tapaði Skipaútgerð ríkisins, sem heyrði undir ráðuneytið, til dæmis tæpum tveimur milljörðum króna eða rúmlega 1,3 milljónum á dag án þess að Matthías hreyfði  legg né lið til að losa skattgreiðendur við þessa byrði. Fjórum árum síðar lagði Halldór Blöndal Skipaútgerðina niður við harmaslag kerfiskerla úr öllum flokkum. Mun þó enginn sakna ríkisskipafélagsins í dag og fáar tillögur um að ríkið hefji skipaútgerð á ný (þó skal ekki útilokað að einhver ríkisbankinn sé að skoða kaup á skipafélagi til að flytja nýlenduvörur í matvörubúðirnar sem einn ríkisbankinn keypti um daginn).