Þriðjudagur 14. júlí 1998

195. tbl. 2. árg.

Stundum er engu líkara en að tíminn standi kyrr í íslenskum stjórnmálum. Hér ekki aðeins átt við þá endaleysu sem sameining vinstri manna er heldur einnig þau mál sem ýmsum stjórnmálamönnum tekst að nota til að koma sér á framfæri. Ekki má svo gleyma þeim málum sem löngu eru útrædd en aldrei tekst að koma í höfn eins og einkavæðingu ríkisbankanna.

Í gærkveldi var Jóhanna Sigurðardóttir mætt í fréttatíma til að útskýra það fyrir okkur hinum að ekki aðeins í Landsbankanum heldur einnig hinum ríkisbönkunum, Búnaðarbanka og Seðlabanka, væri farið heldur óvarlega með risnu og önnur fríðindi. Jóhönnu tókst raunar vel upp og virkaði særð og furðu lostin yfir þessum óvæntu tíðindum úr ríkisbönkunum. Jafnvel þótt fáir hafi staðið jafn dyggan vörð um þessa sömu ríkisbanka.og einmitt Jóhanna sjálf.

Ekki hefur dregið úr nauðsyn þess að einkavæða ríkisbankanna eftir að þeir fóru að kaupa tryggingarfyrirtæki og matvöruverslanir. Þau kaup eru meira áhyggjuefni en kaup bankanna á laxveiðileyfum.