Hinn 8. febrúar sl. lést Julian Simon, prófessor í rekstrarhagfræði við University of Maryland. Simon hefði orðið 66 ára 12. febrúar. Fáir hafa gert umræðu um umhverfis- og auðlindamál jafnmikið gagn á undanförnum áratugum og Simon. Hann hefur verið óþreytandi við að gagnrýna spár umhverfisverndarsinna um að auðlindir séu á þrotum og hagsæld sé andstæð umhverfinu. Frægt er veðmál hans við umhverfisverndarsinnann og Stanford prófessorinn Paul Erlich um verðþróun nokkurra málma milli áranna 1980 og 1990 en Erlich hafði ítrekað spáð því að náttúruauðlindir yrðu á þrotum innan nokkurra ára og verð málma og annarra náttúruafurða myndi snarhækka. Erlich valdi fimm málma til að veðja um og er skemmst frá því að segja að verð þeirra féll að meðaltali um helming á tímabilinu og Simon vann því veðmálið.
Síðasta bók Simons um umhverfismál heitir The Ultimate Resource II. Í bókinni hrekur Simon ýmsar kenningar umhverfisverndarsinna og bendir á að í raun eru náttúruauðlindir ekki takmarkaðar nema af hugmyndaauðgi mannsins. Á meðan nýjungar komi fram sé ekkert að óttast. Ef náttúruafurð hækki í verði leggi fleiri höfuðið í bleyti til að finna nýjung sem geti leyst hana af hólmi. Flestar náttúafurðir hafa hins vegar fallið í verði þar sem framboð þeirra (og nýjunga sem nýta má í þeirra stað) hafi vaxið hraðar en eftirspurnin. Í bókinni leggur Simon áherslu á að hagsæld sé góð fyrir umhverfið. Góð efnahagsleg skilyrði ýti undir framfarir sem koma manninum og umhverfinu sem hann hrærist í vel. Velmegun sé forsenda þess að takast megi á við umhverfisvandamál. Friðrik Ágúst von Hayek lét hafa eftir sér að þegar fyrri útgáfa Ultimate Resource kom út hefði hann skrifað sitt fyrsta og eina aðdáendabréf um ævina. Bókin væri staðfesting á mörgu því sem hann hefði leitt rök að í ritum sínum.