Miðvikudagur 25. febrúar 1998

56. tbl. 2. árg.

Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hafa að undanförnu kveðið upp æ sérkennilegri úrskurði í málum, sem lúta að fyrirtækjum á frjálsum markaði hér á landi. Áður virtist stofnunin einkum beina sjónum sínum að ríkisfyrirtækjum og fyrirtækjum, sem nutu opinberrar verndar með einhverjum hætti, svo sem lögbundinnar einokunar, en nú eru áherslur aðrar.

Það var eðlilegt að samkeppnisyfirvöld skyldu beita sér gegn misnotkun opinberra fyrirtækja og fyrirtækja með einkaleyfi á tilteknum sviðum, enda búa slík fyrirtæki ekki við aðhald heilbrigðrar samkeppni. Þeim óeðlilegu aðstæðum þurfti því að mæta með óvenjulegum hætti. Hins vegar verður ekki annað sagt, en það orki verulega tvímælis, þegar samkeppnisyfirvöld grípa með róttækum hætti inn í viðskipti fyrirtækja á frjálsum markaði, þar sem engin einkaleyfi eru fyrir hendi og hver sem er getur hafið starfsemi. Dæmi um það eru hin ströngu skilyrði, sem samkeppnisráð setti vegna kaupa Flugleiða hf. á Flugfélagi Norðurlands hf. Skilyrðin gengu í stuttu máli út á, að stærsta eiganda hins nýja Flugfélags Íslands hf. var gert erfitt með ýmsum hætti að fara með eðlileg yfirráð yfir eignarhluta sínum í félaginu og kaupin voru gerð óhagkvæmari fyrir aðila, en ella hefði orðið.

Nýjast dæmið af þessum afskiptum samkeppnisyfirvalda er enn grófara. Í Flugfélagsmálinu var rökstuðningurinn sá, að Flugleiðir eru eini aðilinn sem heldur uppi áætlunarflugi á flestum leiðum, bæði innanlands og milli Íslands og annarra landa. Þetta skapaði fyrirtæki sérlega sterka stöðu og ekki væri sennilegt að aðrir teldu hagkvæmt að fara í samkeppni við það (um þetta má þó deila). Einnig má benda á að innanlandsflug var fyrst gefið frjálst um mitt síðasta ár. Í nýja málinu, þar sem Myllunni-Brauði hf. var bannað að kaupa Samsölubakarí hf. eru þessar aðstæður ekki fyrir hendi. Þar er um að ræða tvö fyrirtæki, sem búa við mjög virkt samkeppnisumhverfi. Fjölmargir aðilar baka og selja brauð (t.d. um 100 bakarí) og tiltölulega lítið þarf til til að hefja starfsemi á því sviði (a.m.k. miðað við flug eða rekstur olíufélaga,svo dæmi séu tekin). Þá er fyrir hendi vaxandi innflutningur á frosnu brauði, sem að sjálfsögðu er í samkeppni við brauð bökuð hér á landi.

Markaðsstaða Myllunnar eftir kaupin hefði verið langt frá því að vera markaðsráðandi, þótt hún hefði auðvitað orðið sterk, og aðstaða fyrirtækisins til misnotkunar á þeirri stöðu hefði ekki verið nein (samkeppnislög banna ekki markaðsráðandi stöðu heldur aðeins misnotkun hennar). Þá er til þess að líta, að meðal kaupenda á tilbúnum brauðum eru nokkrir sterkir aðilar í smásölu, sem ólíklegt er að framleiðendur nái að kúga í ljósi markaðsráðandi stöðu. Staða Hagkaups og Bónuss á smásölumarkaði er slík, að ef þeir væru ekki sáttir við viðskiptahætti Myllunnar gætu þeir léttilega eflt einhvern annan aðila með því að beina viðskiptum sínum þangað, eða jafnvel með því að setja á fót eigið bakarí!

Þessi órökrétta stefna, sem samkeppnisyfirvöld hafa nú tekið, er alvarleg í ljósi þess mikla valds sem þeim er falið lögum samkvæmt. Slíkar valdheimildir kalla á það að menn stígi gætilega til jarðar og gæti hófs í ákvörðunum sínum. Verði þessi nýja, afskiptasama stefna ofan á hjá samkeppnisyfirvöldum má búast við því að þrýstingurinn á breytingar á lögum um þau vaxi til mikilla muna, enda munu þá ýmsir snúast gegn þeim, sem hingað til hafa fremur litið á þau sem bandamenn en andstæðing.

Þeim sem hafa áhuga á að sækja um á sumarnámskeið IHS er bent á að ekkert umsóknargjald er lagt á umsóknir sem póstlagðar eru fyrir 1. mars. Fyrir umsóknir póstlagðar eftir 1. mars þarf að greiða 15$. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu IHS.