Þriðjudagur 24. febrúar 1998

55. tbl. 2. árg.

Hinn 20. febrúar gat VÞ um fréttaflutning Ríkisútvarpsins af sjómannaverkfallinu og málflutning tveggja lögmanna sem starfað hafa fyrir verkalýðshreyfinguna. Við þetta má ef til vill bæta að í máli beggja lögmanna verkalýðshreyfingarinnar kom fram mikil áhersla á hugtakið „félagafrelsi“. Lögðu þeir þunga áherslu á að lög til að stöðva verkfall sjómanna gengju gegn þessum mikilvægu frelsisréttindum. Var greinilegt, að þeir töldu báðir að í félagafrelsi ætti að felast frelsi verkalýðsfélaganna til að fara sínu fram. Hins vegar kom ekki fram hvort þeir teldu að í félagafrelsinu ætti líka að felast réttur manna til að standa utan viðkomandi félaga. Verður þó að telja, að núverandi nauðungaraðild að verkalýðsfélögum, sem styðst bæði við lagaákvæði en þó einkum við kjarasamninga, feli í sér enn alvarlegra brot á grundvallarþáttum félagafrelsins heldur en það að ríkisstjórn og Alþingi reyni að hindra stéttarfélög hálaunamanna í að taka allt efnahagslíf þjóðarinnar í gíslingu.

Af því að minnst er á skylduaðild er ekki úr vegi að benda á, að Magnús L. Sveinsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, fer nú hamförum yfir því að Samskip hf. geri það að hluta ráðningarsamnings milli sín og nokkurra starfsmanna, að þeir gangi úr Lífeyrissjóði verslunarmanna yfir í Samvinnulífeyrissjóðinn. Nú má raunar spyrja, hvað búi að baki þessari kröfu Samskipa og hvort þær ástæður séu málefnalegar. Ekki verður reynt að svara því hér. Hins vegar vekur það óneitanlega athygli, að Magnús, sem skyldar þúsundir manna til aðildar að Lífeyrissjóði verslunarmanna, skuli telja það slíkt ofríki að Samskip vilji hafa áhrif á það, hvert lífeyrisgreiðslur starfsmanna fyrirtækisins renna. Það er í sjálfu sér ekki skrítið, að vinnuveitandi á borð við Samskip telji sig eiga að geta haft áhrif á það hvert féð rennur ekki síður en verkalýðsforingjarnir.

Aðalatriði málsins er hins vegar hvorki afstaða vinnuveitandans eða verkalýðsforingjans. Mestu skiptir, hver vilji starfsmannsins sjálfs er. Lífeyrisgreiðslurnar eru hluti launakjara hans og það eru hans hagsmunir, sem í húfi eru. Þess vegna er það réttmæt og sjálfsögð krafa, að allir einstaklingar, bæði launþegar, stjórnendur og sjálfstætt starfandi atvinnurekendur hafi fullt frelsi til að velja sér lífeyrissjóð. Þá þurfa vandamál á borð við Samskipsdeiluna ekki að koma upp. Þá þurfa forystumenn einstakra lífeyrissjóða ekki að eyða tíma sínum í að karpa um það hvert lífeyrisgreiðslur einstakra hópa eigi að renna, eins og lénsherrar miðalda um vald yfir leiguliðum, heldur geta einbeitt sér að því að gera aðildina að sjóðum sínum eftirsóknarverða með því að ávaxta fé þeirra vel og bjóða lífeyrisgreiðendum upp á hagstæð kjör.