Föstudagur 27. febrúar 1998

58. tbl. 2. árg.

Sumir svokallaðir kvenréttindasinnar hafa viljað ganga svo langt í baráttu sinni að skylda bæði karla og konur til að taka fæðingarorlof. Skiptir þá engu hvort konurnar eða karlarnir hafa áhuga á að taka sér orlofið, þau skulu vera heima í svo og svo langan tíma – í nafni jafnréttis. Sumir hafa eflaust haldið að erfitt væri að ganga lengra en þetta í afskiptum af einkalífi fólks, en nú hafa borist fréttir af því að í Austurríki ræði menn lagasetningu sem gengur út á að körlum beri skylda til að vinna helming heimilisstarfa. Næst verður sjálfsagt sett um það regla að hjón skuli fara samtímis í háttinn á kvöldin, hafa sömu áhugamál og hlæja að sömu bröndurunum. Og til að framfylgja öllum þessum nauðsynlegu reglum verður settur upp hlerunarbúnaður á heimilum og öllum hugsanlegum óhefðbundnum rannsóknaraðferðum beitt. Eftir það hlýtur að ríkja fullkomið jafnrétti og allir geta lifað sælir og glaðir!

Valkosturinn við stórt fyrirtæki er ekki lítið fyrirtæki, heldur stórt ríkisvald og það er versta einokun sem hugsast getur, segir m.a. í nýrri skýrslu frá Cato stofnuninni um átök bandaríska dómsmálaráðuneytisins og fyrirtækisins Microsoft. Í skýrslunni er meðal annars bent á að fyrirtæki nái sjaldan markaðsráðandi stöðu og haldi henni aldrei til langs tíma og er fyrrum ráðandi staða IBM nefnd sem dæmi. Undantekningin er þó ef ríkisvaldið setur reglur sem verja stöðu fyrirtækjanna. Vandinn hér er því sá sami og yfirleitt, þ.e. of mikil ríkisumsvif.