Borgarstjórinn í Reykjavík er þekktur fyrir hógværð og lítillæti. Það kom skýrt fram í fréttasamtali sem birt var í Degi á miðvikudaginn, en þar var borgarstjóri spurður um það, hvernig gengi að finna mann í 9. sæti R-listans. Í fréttinni segir orðrétt:
„Ýmis nöfn hafa verið nefnd í sætið, sem borgarstjóri skipar í, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir neitar alveg að gefa upp hverjir séu „heitir“. Borgarstjóri viðurkennir þó að ýmsir kunni að gera sér vonir. Hún þvertekur fyrir að vera beitt þrýstingi af hálfu samstarfsmanna á listanum. „Reglurnar eru skýrar, ég skipa í sætið, enginn getur gert neinar kröfur“, segir hún og bætir við að einu átökin um það séu sín „innri átök“. Borgarstjóri vill að öðru leyti ekki tjá sig um fulltrúa á listann fyrir neðan áttunda sætið.“ „Reglurnar eru skýrar, ég skipa í sætið, enginn getur gert neinar kröfur“.
Ýmsum kann að þykja þetta kaldranaleg kveðja til þeirra sem kusu R-listann 1994 vegna loforða um „lýðræðisbyltingu“ í borginni. Eða þeirra, sem tóku þátt í prófkjöri R-listans um daginn og töldu það afar lýðræðislegt. A.m.k virðist skilningur borgarstjóra á lýðræðinu vera nokkuð óhefðbundinn.