Vefþjóðviljinn 270. tbl. 19. árg.
Sveitarfélögin héldu sína reglulegu „fjármálaráðstefnu“ í vikunni. Þar var hefðbundin dagskrá.
Kvart og kvein.
Sveitarfélögin verða að fá meiri peninga. Geta þau ekki fengið nýja skattstofna? Eða meira frá ríkinu, einhvern veginn. Meira út úr útsvarinu. Þau bara verða að fá meiri peninga.
Sveitarstjórnarmenn hafa keyrt skattheimtuna upp úr öllu valdi. Nokkur sveitarfélög hafa stillt um um að fara með útsvarið í hámark, einkum þau þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er ráðandi, en langflest innheimta eins mikið og þau mögulega geta frá íbúunum.
Þátttakendur á „fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna“ telja almennt að sveitarfélögin verði að fá meiri peninga. Þeir telja hins vegar ekki að íbúar sveitarfélaganna þurfi að hafa meira milli handanna.
Sveitarstjórnarmenn gætu aukið ráðstöfunartekjur íbúa sinna með því að lækka álögur. Lækka útsvar. Lækka fasteignagjöld. Lækka sorphirðugjöld. Taka minna frá íbúunum.
En sveitarstjórnarmönnum dettur þetta ekki í hug. Þeir vilja bara fá meiri tekjur til sveitarfélaganna.
En eru sveitarfélögin ekki svo illa stödd?
Jú, þau hafa eytt um efni fram árum saman.
Eyðslan er ekki aðeins í lögbundin verkefni. Þau eru í svo ótalmargt annað. Hvað halda menn að hún kosti, nefndin sem nýi meirihlutinn í borgarstjórn bjó til, sérstaklega handa borgarfulltrúa Pírata? Hefur einhver fjölmiðill reiknað það út? Hvað halda menn að miklir peningar fari í íþróttafélögin, stúkur, velli, skíðasvæði, keppnisferðir og svo framvegis og svo framvegis.
Og „lögbundnu verkefnin“, ætli ekki sé hægt að spara þar? Þurfa allir skólar að vera einsetnir? Ætli hvergi sé hægt að spara í „sérfræðingum“? Og hvað með starfsmenn í kerfinu. Hvað þarf marga sérfræðinga þar? Þarf að bæta við „mannréttindanefndum“ og stjórnkerfisnefndum? Hvað þarf margar nefndir stjórnmálamanna og hvað þurfa þær að vera fjölmennar?
Hefur einhver heyrt um sveitarfélag sem sparar eins og það getur, heldur sig við lögbundin verkefni, sinnir þeim af hófsemd og skynsemi en sleppir öðru? Nei, þau eru ekki mörg.
En hafa menn heyrt um sveitarfélag sem telur sig vera í fjárhagskröggum og að svarið við þeim sé meiri skattheimta, fleiri tekjustofnar og hærri framlög frá ríkinu?