Þeir sem vilja breyta stjórnarskrá lýðveldisins gætu til dæmis byrjað á því að lesa grein 79 um hvernig það er gert. Þar er bara ekkert um að stjórnlagaráð geti gert slíkar breytingar. Alþingi fer með valdið til breytinga. Samþykkja þarf breytingarnar í tvígang á Alþingi með almennum þingkosningum á milli. Ef breyta skal ákvæðinu um þjóðkirkjuna þarf að bera sjálfa breytinguna undir atkvæði allra kosningabærra manna eftir að Alþingi hefur samþykkt hana.
Þingmenn eru aðeins bundnir við sannfæringu sína
Þá hjálpar líka að lesa grein 48. Þar segir að þingmenn séu „eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Tillögur stjórnlagaráðs eru ekki undanþegnar þessu fallega ákvæði. Einu gildir hvaðan hugmyndir og tillögur koma fyrir þingið. Þingmenn eru ekki bundnir af öðru en sannfæringu sinni.
Þeir sem efndu til fundarhalda stjórnlagaráðs og almennrar atkvæðagreiðslu í kjölfarið virðast hins vegar hafa vonað að skauta mætti hjá þessum skýru greinum. Alþingi yrði í tvígang afgreiðslustofnun fyrir ráðið og þingkosningar þar á milli hefðu ekkert vægi.
Gamalt ráð gegn gargi
Nema það hafi aldrei búið alvara að baki og stjórnlagaráðið og atkvæðagreiðslan bara verið snuð vinstri stjórnarinnar upp í þá hávaðaseggi og skemmdarvarga sem komu óorði á búsáhöld.