Var ástæða til að loka landinu?

Íslendingar voru á góðri leið með að fletja seinni kúrfuna út þegar landinu var skyndilega lokað.

Ríkisstjórnin ákvað á fundi 14. ágúst að herða skilyrði fyrir komu til landsins frá og með 19. ágúst. Þeim sem hingað koma yrði framvegis gert að fara í skimun fyrir og eftir 5 daga sóttkví.

Þetta hafði þau áhrif að erlendum ferðamönnum og öðrum sem koma hingað í skamman tíma var í raun úthýst og framlengdar voru verulega íþyngjandi kvaðir á ferðalög (heimkomu) Íslendinga.

Hvað var það sem rak ríkisstjórnina til að skella landinu nær fyrirvaralaust í lás um miðjan ágúst? Hvaða upplýsingar lágu þá fyrir um þróun seinni bylgju faraldursins?

Seinni bylgjan var orðin flöt

Rannsóknateymi á vegum Háskóla Íslands, Embættis Landlæknis og Landspítala vinnur að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni Sóttvarnalæknis og birta rýni og spár á covid.hi.is.

Hinn 11. ágúst birti teymið rýni á vef sínum  þar sem þetta graf var birt þar sem fyrstu vikur faraldranna í vor (brúnar súlur) og síðsumars (bláar) eru bornar saman.

Fyrstu dagana í seinni bylgjunni, þegar staðfest smit eru mjög fá, gætu menn vissulega haldið því fram að um svipaða þróun sé að ræða og í hinni fyrri. En þegar komið er fram í ágúst hefur seinni bylgjan tekið aðra og betri stefnu en sú fyrri. Enginn vafi er á því að eftir að fyrstu innanlandssmitin um nokkurra vikna skeið greindust í lok júlí höfðu landsmenn aukinn vara á sér í samskiptum, ekki síst þegar viðkvæmir einstaklingar eiga í hlut. Þar kom reynslan frá í vor að góðum notum. Einstaklingsbundnar sóttvarnir virkuðu. Kúrfan var orðin flöt og jafnvel á niðurleið.

Þess vegna er illskiljanlegt hvers vegna gripið var til svo afdrifaríkra takmarkana á landamærunum.

Hinn 14. ágúst, daginn sem ríkisstjórnin tók ákvörðun sína, birti sérfræðingahópurinn svo spá um þróun seinni bylgjunnar.

Punktarnir á myndinni sýna greind dagleg smit. Dekksta spábilið er reiknað svo að 50% líkur séu á að það innihaldi rétt gildi, 60% líkur fyrir það næst dekksta og önnur spábilin miða við 70%, 80%, 90% og 95% líkur. Eins og spágrafið bar með sér var engin vá fyrir dyrum. Þá lá einnig fyrir að þeir sem voru að greinast voru yngri en í fyrri bylgjunni og þar með í minni áhættu. Innanlandssmitum hélt svo áfram að fækka frá 14. til 19. ágúst. Enginn er á sjúkrahúsi.

Hvorki fjöldi smita né spáin um framhaldið gáfu tilefni til að smella landinu í lás.

Tíðindalaust á landamærunum

En var eitthvað að gerast á landamærunum sem hvorki kom fram í smitum innanlands né í spálíkönum sérfræðinganna?

Nei það var tíðindalaust í landamæraskimuninni. Í tvo mánuði höfðu menn séð hvaða hlutfall farþega til landsins var að mælast jákvætt. Það tók engum slíkum breytingum fyrri hluta ágúst að rjúka þyrfti upp til handa og fóta.

Nú eru liðnar tvær vikur frá því ákvörðunin um lokunina tók gildi. Misvísandi fréttir berast af því hvort seinni skimun erlendra ferðamanna hafi gripið þrjú, tvö eða ekkert smit frá 19. ágúst. Það eru á bilinu 0 til 0,07% heimtur. Ef fyrirkomulagið á landamærunum hefði verið háskalegt fyrir 19. ágúst væri það búið að skila sér í fleiri smitum innanlands síðustu daga. Í gær fannst ekkert nýtt smit innanlands. Það var ekkert óviðráðanlegt ástand á landamærunum um miðjan ágúst.

Allt hnígur því að því að lokunin hafi verið ástæðulaus og litlum ef nokkrum ávinningi skilað. Tjónið í efnahagslífinu og skerðingin á borgaralegum réttindum manna eru hins vegar öllum ljós.