Saksóknin gegn pólitískum andstæðingi

Tíu ár eru frá pólitísku ákærunni. Fimm einbeittir ákærendur sitja enn á þingi.

Þingsályktunartillagan um að höfða sakamál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum vegna alþjóðlega fjármálahrunsins var borin fram af fimm þingmönnum í september 2010. Flutningsmenn voru Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir. Áður en yfir lauk féllu Atli og Sigurður Ingi frá stuðningi við tillöguna.

Leikið með ákæruvaldið

Þegar tillagan kom til atkvæða á alþingi 28. september 2010 settu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar á svið leikfléttu til að forða ráðherrum sínum undan saksókninni en láta um leið forsætisráðherrann fyrrverandi, Geir H. Haarde, sitja einan í súpunni. Eins og myndin hér að neðan, sem hefur áður birst hér, ber með sér:

Þeir sem studdu upphaflegu ákæruna gegn forsætisráðherranum voru:

Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Huld Aðalbjarnardóttir, Jón Bjarnason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Pétursdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Mætt og ákært

Það er kannski aukaatriði en segir ákveðna sögu um andrúmsloftið að þarna í ofangreindum hópi ákærenda var kona sem var varaþingmaður Framsóknarflokksins. Hún kom inn á þing um morguninn og tók samdægurs þátt í tilraun til að koma fjórum pólitískum andstæðingum sínum í fangelsi. Höfðun sakamáls vefst ekki fyrir öllum. Hvaða refsing ætli hún hafi til dæmis séð fyrir sér að væri hæfilegt að gera Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra fyrir hið alþjóðlega fjármálahrun? Ætli varaþingmaðurinn sé enn ánægð með þennan þátt sinn í þingsögunni?  

Sumir sáu að sér

Í mars 2012 lagði Bjarni Benediktsson fram tillögu á Alþingi um afturköllun ákærunnar. Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingarinnar lagði þá fram frávísunartillögu á tillögu Bjarna.

Þeir sem studdu frávísunartillögu Magnúsar Orra á tillögu Bjarna voru:

Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman.

Meðal þeirra sem studdu ekki frávísunartillögu Magnúsar Orra voru tveir af fimm flutningsmönnum upphaflegu tillögunnar um ákæru, þeir Atli Gíslason og Sigurður Ingi Jóhannsson. Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir sátu hins vegar við sinn keip.

Aðrir sem sáu að sér og vildu að tillaga Bjarna um að fella ákæruna niður kæmist til atkvæða voru Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson, Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson.

Nokkrir ákærendur sem sáu ekki að sér sitja enn á þingi: Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir. Ætli þau séu enn þeirrar skoðunar að það sé æskilegur hluti af stjórnmálunum að draga pólitíska andstæðinga fyrir dóm?

Pólitískt ofstæki á kostnað almennings

Eins og menn þekkja þá gufaði þessi saksókn svo upp fyrir Landsdómi nema hvað formsatriði sem engu máli skipti varðaði. Engin refsing var gerð.

Mörg hundruð milljónum úr ríkissjóði var eytt í þetta pólitíska ofstæki.