Önnur tilraun til að mynda fimm flokka ríkisstjórn rann út í sandinn í dag.
Fjölmiðlamenn töluðu við Birgittu Jónsdóttur, sem fékk stjórnarmyndunarumboð fyrir mörgum dögum og notaði þá í óformlegar viðræður við fjóra flokka um hvort fimm flokkar ættu að taka upp formlegar viðræður.
Hún sagði til dæmis, samkvæmt frétt Eyjunnar.is: „Nú fer þingið með völdin og fyrir þingræðisfólk eins og okkur Pírata eru það frábærar fréttir.“
Tilraunir hennar til stjórnarmyndunar snerust um að mynda ríkisstjórn svo þingið skiptist í stjórn og stjórnarandstöðu. Þegar tilraunirnar mistakast finnst henni það sýna að þá fari „þingið með völdin“ og það sé frábært. Ef tilraunir hennar hefðu tekist hefði þingið misst völdin, samkvæmt orðum Birgittu.
Í frétt Eyjunnar segir einnig að Birgitta hafi ekki viljað benda á neinn flokk sem hefði orðið til þess að viðræðurnar hefðu farið út um þúfur. Hún gaf þá skýringu „að flokkarnir hefðu gert með sér heiðursmannasamkomulag um að slíkt yrði ekki gert.“
Leiðtogar stjórnmálaflokka hittast í marga daga til að ræða frekar mikilvægt mál, stjórnarmyndun, samkvæmt umboði frá forseta Íslands. Þeir koma sér svo saman á lokuðum fundi að landsmenn megi ekki fá að vita ástæður þess að ekki hafi verið mynduð ríkisstjórn.
Þetta eru þeir sem tala mest um gagnsæi og ný vinnubrögð.
Það er alveg frábært að okkur hafi mistekist ætlunarverkið. En við náðum þó samkomulagi um að segja landsmönnum ekki frá því hvers vegna okkur mistókst.