Skattastyrkir dregnir fram í dagsljósið

Draumahjónin eru meðal þeirra sem njóta skattastyrks með skattfrelsi af greiðslum séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Þeir sem geta ekki nýtt þessa leið greiða fullan tekjuskatt og njóta ekki skattastyrksins.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár er sú nýlunda að sérstök umfjöllun er um svonefnda skattstyrki (bls. 111-115).

Þar segir í inngangi:

Í skattkerfinu eru mörg dæmi um ívilnanir af ýmsum toga. Sem dæmi má nefna undanþágur frá skattskyldu, frádrætti, afslætti, mismunandi skattþrep, endurgreiðslur eða frestun á innheimtu. Að baki slíkum ívilnunum eru skilgreind markmið sem fela í sér fjárhagslegan stuðning í gegnum skattkerfið fremur en heimild til útgjalda úr ríkissjóði. Ívilnanir í skattkerfinu, eða svokallaðir skattastyrkir, eru ekki jafn sýnilegir og útgjöld til hinna ýmsu málaflokka og þess vegna liggja fjárhagsleg áhrif þeirra á ríkissjóð ekki jafn ljós fyrir. Tilgangur þess að birta yfirlit um skattastyrki er sá að stuðla að gegnsærri og markvissri fjármálastjórn ríkisins.

Alls telst fjármálaráðuneytinu til að skattastyrkir af þessu tagi muni nema um 84 milljörðum króna á næsta ári og eru þeir gróflega sundurliðaðir eftir málaflokkum. Það er ánægjulegt að þessir lítt sýnilegu styrkir skuli loks dregnir fram í dagsljósið með skipulegum hætti en fróðlegt væri að sjá nánari sundurliðun á málaflokkunum og hverjir það eru sem njóta þessara styrkja.

Svo segir einnig í frumvarpinu:

Skattastyrkir og bein útgjöld eru hvort tveggja leiðir til að ráðstafa fjármunum úr ríkissjóði til ákveðinna stefnumála. Á ensku kemur þetta skýrt fram í orðunum „expenditures“ (útgjöld) og „tax expenditures“ (skattastyrkir). Útgjöld ríkissjóðs eru reglulega sett undir nálarauga og ný ákvörðun er tekin um alla útgjaldaliði með fjárlögum hvers árs. Skattastyrkjum má hins vegar líkja við útgjöld sem eru ekki endurmetin reglulega og keppa ekki með eðlilegum hætti við önnur málefni um fé úr ríkissjóði, heldur eru þráheldin og ógegnsæ. Lagalegar heimildir fyrir skattastyrkjum er að finna í ákvæðum hinna ýmsu skattalaga. Kostnaður ríkissjóðs við lagasetninguna er metinn í upphafi en ekki er víst að matið sé endurtekið reglulega eins og í tilviki annarra ríkisútgjalda. Ef aðstæður breytast getur kostnaður ríkisins vegna skattastyrksins með tímanum orðið meiri en í upphafi án þess að stjórnvöld séu upplýst sérstaklega um það og endurmetið hvort ákjósanlegt sé að viðhalda óbreyttri stefnu. Í sumum ríkjum er tekið á þessu með reglu þess efnis að við lagasetningu skuli ákvæði sem fela í sér skattastyrk alltaf hafa takmarkaðan gildistíma. Með því að festa fingur á skattastyrkjum og meta áhrif þeirra á skatttekjur ár frá ári má stuðla að því að skattastyrkir fái þá rýni og meðhöndlun sem æskilegt er. Þannig eru skattastyrkir færðir upp á borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og um leið sýnilegir til að tryggja að þeir samræmist stefnu stjórnvalda hverju sinni, á sama hátt og ef um bein útgjöld til tiltekinna verkefna ríkisins væri að ræða.

Hér er ágætlega rakið hve ógagnsæir þessir styrkir eru, hve óvönduð vinnubrögðin geta verið í kringum þá og eftirlit með þeim getur verið erfitt.

Auðvitað er æskilegt að þegar ríkið veitir stuðning að það sé gert með beinum og sýnilegum hætti en ekki með ógagnsærri mismunum í gegnum skattkerfið.

Því miður er það þó svo að stjórnmálaflokkar sem tala mest um gagnsæi eru mjög hrifnir af því að nota skattkerfið til að mismuna fólki, fyrirtækjum og atvinnugreinum með skattastyrkjum af þessu tagi. En það þarf þó kannski ekki að koma á óvart að þessir flokkar telji það kost að fela ríkisútgjöldin með þessum hætti.