Lögleg og ólögleg skattundanskot á pari

Þegar leikreglur eru ekki almennar er hætt við að virðing manna fyrir þeim minnki.

Hér var í fyrradag sagt frá því að í nýju fjárlagafrumvarpi er gerð grein fyrir svonefndum skattastyrkjum. Eins og segir í umfjöllun í fjárlagafrumvarpinu:

Í skattkerfinu eru mörg dæmi um ívilnanir af ýmsum toga. Sem dæmi má nefna undanþágur frá skattskyldu, frádrætti, afslætti, mismunandi skattþrep, endurgreiðslur eða frestun á innheimtu. Að baki slíkum ívilnunum eru skilgreind markmið sem fela í sér fjárhagslegan stuðning í gegnum skattkerfið fremur en heimild til útgjalda úr ríkissjóði. Ívilnanir í skattkerfinu, eða svokallaðir skattastyrkir, eru ekki jafn sýnilegir og útgjöld til hinna ýmsu málaflokka og þess vegna liggja fjárhagsleg áhrif þeirra á ríkissjóð ekki jafn ljós fyrir. Tilgangur þess að birta yfirlit um skattastyrki er sá að stuðla að gegnsærri og markvissri fjármálastjórn ríkisins.

Fjármálaráðuneytinu telst til að skattastyrkirnir séu 84 milljarðar á ári.

Undanfarið hefur það verið nefnt í umræðunni að um 80 milljarðar króna séu vantaldir til skatts hér á landi, þ.e. skotið undan skattheimtu. Væntanlega er átt við að skattstofninn sé um 80 milljarðar og tekjutap ríkisins þá einhver hluti af því, kannski um helmingur eða 40 milljarðar króna.

Það er áhugavert að bera þessar tvær tölur saman.

Þessir rúmu 80 milljarðar sem ríkið veitir árlega í skattastyrki eru svipuð fjárhæð og nefnt hefur verið að skotið sé undan skattlagningu hér á landi.

Kannski á það sinn þátt í hinum ólögmætu undanskotum hve hin lögmætu undanskot eru mikil. Það er ekki víst að það hafi jákvæð áhrif á viðhorf manna til laga og reglna þegar veittar eru svo margar undanþágur og afslættir af þeim.