Sænska hugveitan Timbro gaf nýlega út skýrslu þar sem reynt er að leggja mat á hversu mikilli fótfestu lýðrskrumsflokkar með alræðistilburði hafa náð í löndum Evrópu.
Í skýrslunni segir að lýðskrumsflokkar hafi aldrei haft meiri stuðning í Evrópu en nú. Að meðaltali kjósi nú fimmtungur evrópskra kjósenda lýðskrumsflokka til vinstri eða hægri. Þessa þróun megi rekja allt aftur til aldamóta.
Í skýrslunni segir jafnframt að sífellt fleiri flokkar af þessu tagi nái að hafa áhrif á stjórn ríkja. Nú séu slíkir flokkar við stjórn í níu Evrópuríkjum og séu hluti af þingmeirihluta í tveimur ríkjum til viðbótar. Á þessu ári hafi lýðskrumsflokkar náð verulegum árangri í þingkosningum í Slóvakíu, Serbíu og á Kýpur, forsetakosningum í Austurríki og í svæðisbundnum kosningum í Þýskalandi.
Nú er samanburður af þessu tagi alltaf takmörkum háður eins og gert er ágæt grein fyrir í skýrslunni. Það sem einum kann að þykja lýðskrum og alræðistilburðir er bara opin umræða og tilraun til að gæta almannahags í augum næsta manns.
En það er engu að síður athyglisvert að Ísland skuli glansa í þessum samanburði og bætist hann þá á langan lista yfir alþjóðlegan samanburð um alls kyns mál, velferð, umhverfi, orku, menntun, jafnrétti, heiðarlega stjórnsýslu, þar sem Ísland er undantekningarlítið meðal þeirra ríkja sem hljóta bestu einkunn.
Timbro telur að auk Íslands séu Svartfjallaland og Malta laus við að stjórnmálaflokkar af þessu tagi hafi náð árangri í kosningum.