Forsetinn breytir ekki embættinu

Tveir fyrrverandi forsetar ásamt forseta alþingis.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur látið af embætti forseta Íslands. Á miðnætti settust handhafar forsetavalds, Einar K. Guðfinnsson, Markús Sigurbjörnsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, við öryggisventilinn, viðbúnir að grípa inn í, ef gjá myndaðist milli þings og þjóðar. Ef að líkum lætur tekur nýr maður svo við síðdegis í dag og handhafarnir geta þá hvílt sig eftir svefnlausa nótt við ventilinn.

Það er margt sagt um íslenska forsetaembættið. Margt af því er í litlum tengslum við raunveruleikann.

Stundum er sagt að hver forseti móti embættið. Margir hafa sagt að forsetaembættið hafi gjörbreyst í höndum Ólafs Ragnars Grímssonar.

Það er að mörgu leyti grundvallarmisskilningur að forseti Íslands, hvort sem hann heitir Ólafur Ragnar, Vigdís eða eitthvað annað, breyti embættinu. Það er stjórnarskráin en ekki einstakir forsetar persónulega sem afmarkar forsetaembættið. Forsetinn getur ekki tekið sér vald sem hann hefur ekki, rétt eins og hann gæti ekki afsalað sér því ef hann hefði það.

Dæmi um þetta getur verið samskipti forsetaembættisins við erlenda valdamenn. Þau eru á ábyrgð utanríkisráðherra en ekki forseta. Það er utanríkisráðherra en ekki forseti sem ræður því hverjum er boðið í opinbera heimsókn og hvaða erlend heimboð eru þegin. Hugsanlega hefur einhver forseti farið sínu fram að þessu leyti, en utanríkisráðherrann hefur þá samþykkt það með aðgerðaleysi í hvert skipti. Það breytti ekki því að valdið liggur hjá utanríkisráðherra en ekki forsetanum.

Þetta skilst kannski betur ef búin eru til einstök dæmi. Ef íslenska ríkisstjórnin, á ábyrgð utanríkisráðherra, ákveddi að Ísland hefði engin opinber samskipti við ráðamenn í Sýrlandi og forseti Íslands hringdi daginn eftir í Assad og byði honum í opinbera heimsókn, hvað ætti stjórnsýslan þá að gera? Hvað ætti landamæralögreglan í Keflavík að gera? Eða á Seyðisfirði ef Assad kæmi með Norrænu?

Auðvitað gilti ákvörðun utanríkisráðherra en ekki forseta. Ef Vladimir  Putín byði forseta Íslands í heimsókn til Moskvu og forsetinn segði já takk en utanríkisráðherrann nei, þá gilti ákvörðun utanríkisráðherrans. Og öfugt. Ef utanríkisráðherrann samþykkti heimsóknina er forsetinn vildi ekki fara, þá ætti ákvörðun utanríkisráðherrans að gilda. En að sjálfsögðu yrði forsetinn ekki fluttur í böndum í heimsóknina, ef hann vildi alls ekki fara. En með því að bjóða sig fram til forseta hafa menn í raun samþykkt þessar skyldur, þótt þeir verði ekki neyddir beinlínis til að framfylgja þeim. Forsetinn er ekki venjulegur embættismaður. Hann fær ekki áminningu fyrir óhýðni. Hann verður ekki rekinn, nema með samþykkt Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu.

En sú staðreynd að forsetinn verður ekki þvingaður með valdi til einstakra verka hefur á síðustu árum orðið til þess að upp hefur komið sá misskilningur að slíkt hafi einhverja formlega þýðingu. Ef forseti neitar að vinna það verk að skrifa undir skjal, sem ráðherra málaflokksins leggur til við hann að hann skrifi undir, þá verður hann ekki neyddur til þess með valdi. Lögreglan mætir ekki á Bessastaði og þvingar hann til að skrifa. En stjórnskipulega er litið svo á að undirskriftin sé komin, en ábyrgðin er hjá ráðherranum sem skrifar undir. Forsetinn er ábyrgðarlaus. Ráðherrann ber ábyrgðina og fer með valdið.

Ef forsetinn myndi neita að skrifa undir skjalið og ráðherrann gerði ekkert í framhaldinu yrði litið svo á að ráðherrann hefði ákveðið að falla frá tillögunni. Málið næði þá ekki lengra. En forsetinn og ráðherrann hefðu ekki breytt stjórnskipuninni með þessu. Forsetinn getur ekki breytt embættinu og ráðherrann ekki heldur. Ef forseti segðist hafa völd sem hann hefur ekki, þá myndi embættið ekki fá slík völd við það. Ef forseti segðist ekki hafa tiltekin völd, þá myndi embættið ekki missa þau ef embættið hefði þau á annað borð.

Fólk hefur ólíka framkomu, málfar, smekk og svo framvegis. Að slíku leyti er hver forseti líkur eða ólíkur fyrirrennurum sínum. En allir taka þeir við sama forsetaembættinu sem þeim er treyst fyrir til fjögurra ára í senn, og skila því svo til eftirmanns síns. Embættið er stærra en þeir sjálfir og það er ekki á þeirra valdi að breyta því, hvorki til ills né góðs. Nýr maður tekur við embættinu við í dag. Vonandi verður hann farsæll í störfum, sinnir þeim í takti við íslenska stjórnskipun af fullum trúnaði við stjórnarskrána. Í upphafi forsetaferils hans ætlar enginn honum annað. Megi honum vel farnast. Ólafi Ragnari Grímssyni má einnig þakka það sem hann gerði vel.