Geta mótmælendur hrópað kjósendur niður?

Eiga ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins að fara frá í hvert sinn sem vinstri menn berja bumbur á Austurvelli?

Það verður alltaf ljósara að þeir sem tala fyrir styttingu kjörtímabilsins, með haustkosningum í miðri fjárlagavinnu þingsins, hafa engin haldbær rök fyrir slíku. Þess vegna heyrast þau ekki. Þess í stað er hamrað á því að það sé „búið að ákveða þetta“ og „of seint að hætta við“. Það verði að vera „eitthvað að marka menn“.

Í þrjú ár var talað um að kosið yrði vorið 2017. Það er eins og því hafi mátt breyta í einu sjónvarpsviðtali, en aldrei megi breyta því sem talað var um í viðtalinu. Sem þó var ekki annað en að stefnt yrði að kosningum, ef öll helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar hefðu þá verið samþykkt, og sérstaklega var tekið fram að engin tímasetning hefði verið ákveðin.

Tvennt hafa menn talað um til að rökstyðja haustkosningar. Annað er misskilningur en hitt er mjög alvarlegt.

Menn hafa sagt að þegar „stjórnarsamstarfið var endurnýjað í vor“ hafi haustkosningar verið ákveðnar. Þetta er misskilningur. Stjórnarsamstarfið var ekkert endurnýjað. Því lauk aldrei. Forsætisráðherrann lét af embætti, en það var vegna persónulegra mála sem aðrir ráðherrar og þingmenn báru enga ábyrgð á, hvað þá þeir kjósendur sem greiddu atkvæði í lýðræðislegum þingkosningum vorið 2013. Nýr maður settist í stól hans, varaformaður hans úr sama stjórnarflokki. Var gerður nýr stjórnarsáttmáli? Voru stofnanir flokkanna kallaðar saman til að samþykkja nýjan stjórnarsáttmála og endurnýjun stjórnarsamstarfsins?

Hins vegar hafa menn sagt að upp hafi komið aðstæður sem bregðast hafi þurft við. Ef þetta veldur þingrofi og kosningum er það mjög alvarlegt. Það var efnt til mótmælafundar. Í framhaldi af honum ákvað þingflokkur Framsóknarflokksins að þáverandi forsætisráðherra viki úr ráðherrastól fyrir varaformanni sínum. Ríkisstjórnin missti ekki þingmeirihluta sinn. Enginn málefnaágreiningur kom upp milli stjórnarflokkanna. Ef þessir atburðir verða til þess að þingið verður rofið, þótt ríkisstjórnin hafi þingmeirihluta, er búið að samþykkja að öskra megi þingið í burtu. Það er beinlínis aðför að íslenskri stjórnskipun ef þetta verður látið eftir stjórnarandstæðingum. Fordæmið yrði skelfilegt.

En enginn þarf að ímynda sér að það verði algild regla. Vinstristjórnir verða aldrei öskraðar í burtu. Það verður bara efnt til slíkra funda ef Sjálfstæðisflokkurinn situr í ríkisstjórn.  Hægrimenn munu aldrei mæta dag eftir dag til að öskra á þinghúsið. Og þótt þeir reyndu yrðu þeir aldrei auglýstir í fréttatímum og ekki sent beint út frá útifundum þeirra. Og jafnvel þótt þeir héldu slíka fundi myndi vinstristjórn aldrei láta af völdum vegna þeirra. Það verða bara sjálfstæðismenn sem aldrei framar munu geta setið í ríkisstjórn sem vinnur umdeild verk, því yfir þeim verður alltaf þingrofskrafa og útifundur sem bregðast þarf við.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tapaði tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og haldnir voru útifundir gegn henni. Í meira en ár hafði hún ekki meirihluta á þinginu til að koma baráttumálum sínum í gegn. Henni datt aldrei í hug að boða til kosninga.