Vefþjóðviljinn 180. tbl. 20. árg.
Hvers vegna halda næstum allir Íslendingar með íslenska landsliðinu í fótbolta? Er það ekki bölvuð þjóðremba?
Það er ekkert að því að halda með eigin landi. Það er ekkert að því að þykja vænna um landið sitt en önnur lönd. Flestir virða foreldra sína umfram annað fólk. Að ekki sé talað um þann mun sem nær allt fólk gerir á eigin börnum og annarra manna börnum. Flestir átta sig á þessu með foreldrana og börnin og skilja að hægt er að elska einn án þess að því fylgi hatur á öðrum. En margir verða hikandi þegar einhver segist elska land sitt.
Það er ekkert athugavert við ættjarðarást. Svo lengi sem hún fær menn ekki til þess að ráðast inn í nágrannaríkin. Ótrúlega margir bregðast samt illa við þegar þeir verða varir við ættjarðarást hjá löndum sínum. Telja það þjóðrembu eða skort á alþjóðahugsjón.
En það er rangt hjá þeim. Það er ekkert að því að þykja vænna um heimahagana en önnur svæði og þykja vænna um landið sitt en önnur lönd. Það á ekki að gera öðrum löndum órétt, en þeir sem gæta þess þurfa ekki að skammast sín fyrir að fylgja landinu sínu að málum.
Áfram Ísland.