Miðvikudagur 29. júní 2016

Vefþjóðviljinn 182. tbl. 20. árg.

Það verður áhugavert að fylgjast með íslensku þjóðfélagi næstu misserin.

Félagið Allt ómögulegt á Íslandi en gott í útlöndum gæti mögulega átt á brattann að sækja eftir lágstemmdar forsetakosningar, Brexit og ótrúlegan árangur íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Illugi Jökulsson, Jónas Kristjánsson, Egill Helgason, Stefán Ólafsson, Sigrún Davíðsdóttir og félagar gætu átt erfiðara en áður með að sannfæra landsmenn um að hér á Íslandi séu helstu og mestu aulabárðar heimsins, stjórnmálin séu spilltari en víða annars staðar, allir sem stundi viðskipti séu glæpamenn, stjórnarskráin ónýt og við verðum að ganga í ESB.

Þá er ekki víst að „hrunið“ verði jafn mikið haldreipi fyrir marga og áður. Jújú það var merkilegt og miður að þegar versta fjármálakreppa á Vesturlöndum í áratugi reið yfir skyldu þrír alþjóðlegir bankar einmitt starfa á Íslandi með þeim afleiðingum sem menn þekkja. Og það er alveg ágætt að hafa rætt það talsvert í átta ár. En sjálfsagt fer þeim fækkandi sem telja Íslandssöguna hafa farið fram í október 2008.