Helgarsprokið 26. júní 2016

Vefþjóðviljinn 179. tbl. 20. árg.

Það er sérkennilegt að fylgjast með þeim þrýstingi sem áróðursmenn setja stundum á fólk að nýta atkvæðisréttinn. Atkvæðisrétturinn er ákaflega mikilvægur, en hann er réttur en ekki skylda. Rétt eins og rétturinn til að tjá skoðun sína á prenti eða ganga í stjórnmálaflokk.

Hvers vegna ætli menn láti dynja skilaboð eins og „Kjóstu!“ og „Kjóstu, það tekur bara örfáar mínútur“, á fólki, ekki síst ungu fólki?

Þeir sem hafa ekki hugsað sér að kjósa, annað hvort vegna þess að þeir hafa engan áhuga á því, eða vegna þess að þeir vilja ekki eyða tíma í það, hafa ekki mikinn áhuga á því máli sem kosið er um. Það eru því allar líkur á því að þeir hafi ekki kynnt sér það vel og hafi ekki ígundaðar skoðanir á því, byggðar á þekkingu. Hugsanlega hafa þeir kynnt sér nýjustu twitterin eða annað slíkt, en það er mjög ólíklegt að þekking þeirra á málinu sé í raun mikil, úr því þeir ætluðu sér ekki að kjósa.

Hvers vegna er það eitthvert kappsmál að sem flestir af slíkum kjósendum kjósi?

Þeir sem standa fyrir ákalli um að sem allra flestir kjósi, eru auðvitað ekki að reyna að fjölga kjósendum, heldur að fjölga kjósendum sem þeir telja líklegt að kjósi eins þeir sjálfir. Taka má einfalt dæmi. Kjörsókn er 60%, tveir menn í framboði, Kasper og Jesper. Stuðningsmenn Jespers senda SMS og twitterskeyti út um allt með skilaboðunum „Allir eiga að nýta atkvæðisréttinn.“ og „Kjóstu, annars kýs einhver annar fyrir þig“. Svo er kosið, kjörsókn er 70%, Kasper fær 45% en Jesper 55%. Dettur einhverjum í hug að stuðningsmenn Jespers, sem sendu út ákallið, hefðu orðið ánægðari ef þessi 30% sem sátu heima hefðu drifið sig á kjörstað eftir kvöldmat og kosið Kasper?

Nei auðvitað ekki. Ákall um að þeir, sem ekki ætluðu að kjósa, drífi sig á staðinn, er ekki ósk um meiri kjörsókn. Það er ákall um að fleiri af tiltekinni tegund kjósenda kjósi.

Ef menn vilja að einum flokki gangi betur en öðrum, eða að einum frambjóðanda gangi betur en öðrum, þá vilja þeir ekki endilega „mikla“ kjörsókn. Þeir vilja sem mesta kjörsókn kjósenda síns flokks eða síns frambjóðanda. Það er ekkert óeðlilegt við það. En menn eiga ekki að láta eins og þeir hafi bara einhvern almennan áhuga á kjörsókn.

Það er líka undarlegt þegar fréttamenn og kjörstjórnarmenn ræða saman á kjördegi. Þá er hiklaust notað orðalag eins og „góð kjörsókn“ eða „betri“ eða „verri“ kjörsókn en áður. Kjörsókn er meiri eða minni, en það er matsatriði hvort hún er betri eða verri. Ef á síðasta hálftímanum fyrir lokun kjörstaða koma rútur með tvö þúsund kjósendur Fasistaflokksins, hefur kjörsóknin þá batnað?