H ópur einstaklinga hefur ýtt úr vör kynningu á Icesave III. Er það gert undir nafninu ADVICE. „Hópurinn vill leggja sig fram um að upplýsa um helstu rök gegn lögunum. Kjósendur eiga rétt á því að kynna sér bæði sjónarmiðin áður en þeir gera upp hug sinn. Meðlimir ADVICE hópsins hafa ólíkar stjórnmálaskoðanir en eru sammála um að farsælast sé fyrir Ísland að hafna Icesave lögunum,“ eins og segir á vef ADVICE.
Á vef ADVICE er helstu álitaefnum varðandi samninginn gerð skil. Þar á meðal svonefndri jafnræðisreglu sem verið hefur til umræðu frá því neyðarlögin svonefndu voru sett haustið 2008, öllum innstæðueigendum var veittur forgangur í þrotabú bankanna og innstæður á Íslandi voru færðar yfir í nýja banka þar sem þær eru enn aðeins greiddar út í íslenskum krónum, sama í hvaða mynt þær voru upphaflega.
Um möguleg brot á jafnræðisreglunni segir á vef ADVICE:
Fjórða grein EES samningsins bannar mismunun á grundvelli þjóðernis (e. nationality). Um slíkt var ekki að ræða. Innistæður Breta og Hollendinga í útibúum á Íslandi voru tryggðar en hinsvegar ekki innistæður Íslendinga í breskum og hollenskum útibúum. Skv. almennum reglum um mismunun innan ESB er gert ráð fyrir að hana megi réttlæta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þrátt fyrir að ESA taki ekki afstöðu til brots á jafnræðisreglunni í áliti sínu frá 15. desember 2010 um neyðarlögin er þar staðfest að öll þessi skilyrði hafi verið til staðar í tilfelli Íslands. |
Á það ber jafnframt að líta að Icesave III skýtur ekki loku fyrir að Íslendingar verði dregnir fyrir dóm vegna ýmissa þátta neyðarlaganna og jafnvel innstæðutrygginga. Slík mál eru þegar á leið um réttarkerfið óháð samningaþrefi íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda.