Mánudagur 14. mars 2011

73. tbl. 15. árg.

A llur kostnaður við útgáfu Vefþjóðviljans og aðra starfsemi Andríkis er greiddur með frjálsum framlögum. Þannig á það auðvitað að vera og þakklátt er félagið þeim sem hafa stutt við bakið á því, margir árum saman. En ekki láta allir aðrir sér frjáls framlög nægja. Stjórnmálaflokkarnir skammta sér hundruð milljóna króna úr ríkissjóði og borgarstjórnarflokkarnir eru byrjaðir á að skammta sér úr borgarsjóði. Ekki virðist Besti flokkurinn ætla að innleiða ný vinnubrögð þar. „Aðilar vinnumarkaðarins“ hafa verið drjúgir í nauðungargjöldunum. Verkalýðshreyfingin innheimtir há nauðungargjöld af félagsmönnum, lífeyrissjóðirnir fá iðgjöld á færibandi og nú er kominn ríkisbanki á stjá.

Nú eru tæpar fjórar vikur þar til landsmenn ganga að kjörborði vegna Icesave-ánauðarinnar. Hræðsluáróður og heilaþvottur dynur á þeim jafnt og þétt. Ríkisútvarpið dregur ekki af sér og heimsendaspámenn munu koma í Spegilinn og Kastljósin og endurtaka bölsýnissönginn sem þeir sungu vegna Icesave II, og reyndist auðvitað helber þvættingur. Fréttablaðið mun fjölga forsíðufréttum þar sem boðuð verður örbirgð og hörmungar ef menn gangast ekki undir Icesave-ánauðina. Ritstjóri blaðsins studdi fyrri Icesave-ánauðir og mun ekki draga af sér fyrir þessa nýjustu. Allskyns spámenn verða leiddir fram og sagt að samþykkt ánauðarinnar sé forsenda þess að daginn lengi og sumarið komi. „Aðilar vinnumarkaðarins“ munu ekki spara stóryrðin og heitingarnar heldur.

Gegn þessari áróðursvél mun Andríki berjast.

Þegar allt þetta vofir yfir ítrekar Andríki þakkir sínar til styrktarmanna sinna, hvort sem þeir styrkja félagið reglulega eða í eitt og eitt skipti. Sömu þakkir fá þeir fyrirfram sem ganga til liðs við þennan ágæta hóp. Það má gera á síðunni hér til vinstri, um hnappinn Frjálst framlag.