F yrir nokkru komust „mótmæli“ í tísku. Margir lifa sig svo í tískuna að þeir haldi að svo fremi sem þeir séu að „mótmæla“ einhverju, þá leyfist þeim allt eða næstum allt. Fjölmiðlamenn spila með og kalla jafnvel augljósa skemmdarvarga fríspilsheitinu „mótmælendur“. Í óeirðunum sem efnt var til fyrir tveimur árum gerðu fjölmiðlamenn víst aðeins eina undantekningu, en það var þegar skemmdarvargar eyðilögðu kapal í eigu Stöðvar 2. Þá urðu þeir að skríl og skemmdarvörgum, enda gættu þeir sín á því eftirleiðis að skemma bara alþingishúsið, dómkirkjuna, opinberar stofnanir og einkaheimili.
Fyrir ári lést gamall maður, Helgi Hóseasson, en mótmæladýrkendur tóku hann upp á arma sína á síðustu árum, þótt óvíst hversu margir þeirra hafi lagt sig mikið eftir því hvað hafi verið þungamiðja í baráttu hans. Helgi sletti skyri á Kristján Eldjárn forseta, Sigurbjörn Einarsson biskup og alþingismenn og tjargaði stjórnarráðið, allt til að leggja áherslu á að skírnarsamningur sinn og Guðs yrði felldur úr gildi. Mótmælendadýrkendur nútímans hafa hins vegar tekið ástfóstri við þann Helga sem á allra síðustu árum stóð með skilti á Langholtsveginum, og líta svo á að einstök valin skilti úr þeim stöðum hafi verið lykilatriði í áratuga baráttu mannsins.
Nú hefur verið komið fyrir minnisvarða og fleiru þar sem Helgi stóð. Vaknar þá auðvitað spurningin, hvort þeir sem lofsyngja jafnan mótmæli, sama að hverju sem þau beinast, myndu ekki örugglega fagna því ef einhverjir „mótmælendur“, sem hefðu verið ósammála Helga heitnum, beittu hans eigin aðferðum og til dæmis tjörguðu minnismerkin.
En raunar er ástæða til að minnast Helga og „mótmæla“ hans. Þessi „frægasti mótmælandi Íslands“ stóð áratugum saman óáreittur við mótmæli sín og er hylltur og lofsunginn að ævilokum. Hvað er skýrari minnisvarði um hversu opið og frjálst þjóðfélag hefur hér jafnan verið, þrátt fyrir samfelldar fullyrðingar sumra um ofsóknir, kúgun og það nýjasta, „þöggun“?