Þ að er að vonum mikið rætt um afleiðingar fjármálabólunnar sem sprakk framan í heimsbyggðina haustið 2008. Fólk missir heimili sín, það er mikið atvinnuleysi og margir sjá ekki fram á að geta nokkru sinni greitt skuldir sínar. Umræður um uppsprettu bólunnar eru hins vegar furðu litlar. Helst verður þeirra vart ef einhver telur sig geta komið höggi á pólitískan andstæðing með því að kenna hann við ógæfuna.
Hvernig gat brostið á svo almennt dómgreindarleysi meðal banka, kaupahéðna og almennings? Vefþjóðviljinn hefur stundum boðið upp á þá skýringu að vandinn liggi í stjórn ríkisins á peningamálum. Í þeirri stjórn felist of mikil freisting fyrir stjórnmálamennina. Lækkum vexti og setjum prentvélarnar í gang svo velsælt hríslist um hagkerfið – fyrir næstu kosningar. Með þessu fái bæði fólk og fyrirtæki rangar upplýsingar. Þetta er það sem austurrísku hagfræðingarnir svonefndu hafa sagt frá því fyrir daga kreppunnar miklu og gera enn. Einn þeirra, F.A. Hayek, sagði svo frá í fyrirlestri árið 1975:
Kannski hefði vitringur getað séð fyrir að innan við þrjátíu árum eftir þjóðnýtingu Englandsbanka, yrði kaupmáttur sterlingspundsins orðinn minna en fjórðungur þess sem hann var þá. Eins og hvarvetna hefur gerst, fyrr eða síðar, var enn á ný ills viti að stjórnvöld gætu ráðið peningamagni. Ég skal ekki draga í efa að skynsamleg og fyllilega sjálfstæð peningastjórn, á lands- eða heimsvísu gæti reynst betur en alþjóðlegur gullfótur, eða sjálfvirkt kerfi af nokkru tagi. En ég sé bara ekki neina von til þess að nokkur stjórnvöld – eða stofnun sem sætir pólitískum þrýstingi – muni nokkru sinni geta það.
Ég hafði svo sem aldrei miklar tálsýnir í þeim efnum, en ég verð að játa að á langri ævi hefur álit mitt á ríkisstjórnum farið heldur minnkandi: því gáfulegri sem þær reyna að vera (fremur en bara að fylgja fyrirfram settum reglum), – því meiri vandræði hljótast af; því þegar uppvíst er að þær stefni að vissum markmiðum (fremur en bara viðhalda sjálfbærri, sjálfkrafa skipan), verður illt um vik að komast hjá því að þjóna sérhagsmunum. Og kröfur allra skipulegra sérhagsmuna, eru næstum alltaf slæmar – ja, nema þegar þeir malda í móinn gegn hömlum á sig, í þágu annarra sérhagsmuna. Það dugar mér engan veginn að – í sumum löndum í það minnsta – eru opinberir starfsmenn sem sjá um hlutina, upp til hópa skynsamir, velviljaðir og heiðarlegir menn. Reyndin er sú, að ef ríkisstjórnir ætla að vera við völd, í okkar stjórnskipan, eiga þær ekki annars úrkosti en nota völd sín í þágu sérhagsmunahópa – og eitt knýjandi hagsmunamál er alltaf að fá meiri pening til aukinnar eyðslu. Óháð því hversu slæm verðbólga þykir vera almennt, eru jafnan stórir hópar fólks – þar á meðal einhverjir sem eru sérstök uppspretta fylgis handa stjórnum sem hneigjast til heildarhyggju – sem hafa mikinn hag af verðbólgu til skamms tíma litið. – Þótt það felist ekki í öðru en fresta tekjumissi um hríð, sem mannlegu eðli finnst að sé bara tímabundið ef hægt er að bjargast yfir erfiðasta hjallann. Þrýstingur um meiri og ódýrari peninga er pólitísk krafa sem er alltaf til staðar, og sem peningayfirvöld hafa aldrei getað staðist – nema vera í aðstöðu til að benda á óbifanlega fyrirstöðu, svo þeim sé ókleift að verða við slíkum kröfum. Og það verður jafnvel enn erfiðara, þegar sérhagsmunir geta í ríkari mæli bent á æ torkennilegri mynd af heilögum Maynard. Ekkert verður brýnna en að reisa nýjar skorður gegn áhlaupum frá alþýðlegum útgáfum keynesisma, – sem sagt, að endurreisa þær skorður sem á skipulegan hátt hafa verið hlutaðar í sundur fyrir áhrif kenninga hans. Það var einmitt megin hlutverk gullfótarins, hallaleysis fjárlaga, nauðsynjar þess að lönd í fjárlagahalla drægju úr peningamagni, og takmörkunar á framboði „alþjóðlegs hreyfanleika,“ – að gera peningayfirvöldum ókleift að gefast upp fyrir kröfum um meiri peninga. Og það var einmitt af þeim sökum að allar þessar skorður við verðbólgu, – sem höfðu gert lýðræðislega kjörnum stjórnum stætt á að kveða nei við kröfum voldugra sérhagsmuna um meiri pening – voru teknar burt að undirlagi hagfræðinga, sem töldu að ef stjórnvöld losnuðu úr fjötrum sjálfvirkra hlekkja, gætu þau stjórnað viturlega í þágu almannaheilla. Ég held það sé ekki hægt að bæta stöðuna núna með því að búa til einhverja nýja, alþjóðlega peningaskipan, hvort heldur sem er alþjóðlegt peningayfirvald, eða jafnvel alþjóðasáttmála um að taka upp ákveðið gangverk eða stefnukerfi, eins og klassíska gullfótinn. Ég er nokkuð viss um að ef nú væri reynt að endurvekja gullfótinn með alþjóða sáttmála, myndi það brátt sigla í strand og ekki áorka öðru en sverta hugmyndina um alþjóða gullfót enn lengur. Án sannfæringar fólks almennt þess efnis, að stöku sinnum sé nauðsynlegt að grípa til ráða sem eru ónotaleg til skamms tíma, til að halda sæmilegum stöðugleika, – getum við ekki vænst þess að nokkurt yfirvald, sem getur ráðið peningamagni, geti til lengdar staðist kröfur og seiðmagn ódýrra peninga. |