Á rni Páll Árnason, hinn virti ráðherra, hefur nú fundið sér nýjan óvin, sem hann virðist jafn ákveðinn í að hafa undir og stjórn Íbúðarlánasjóðs. Þessi óvinur ráðherrans er í raun tvö fyrirtæki sem undanfarið hafa boðið landsmönnum peningalán með litlum sem engum fyrirvara, en skömmum lánstíma og hærri vöxtum en hið farsæla bankakerfi bauð upp á. Þetta kallar Árni Páll sjóræningjastarfsemi og vill banna.
Fréttamenn hafa á þessu mikinn skilning og segja alvarlegir í bragði að þessi fyrirtæki leggi snörur sínar ekki síst fyrir ungt fólk sem sé reynslulítið í viðskiptum.
Forræðishyggjumaðurinn Árni Páll má auðvitað ekki til þess hugsa að menn geti án leyfis ríkisins samið um smávægilegt peningalán gegn drjúgum skammtímavöxtum. Slíka starfsemi þarf að sjálfsögðu að banna, eða setja að minnsta kosti miklar reglur um hana. Svo er ungt fólk líklegt til að fara illa að ráði sínu með svona lántöku. Um að gera að banna því öllu fólki, á öllum aldri, að taka slík lán. Enginn ætti að mega taka lán nema á vöxtum sem Árni Páll leyfir.
Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort rétt er að ungt fólk taki þessi skyndilán. Honum er sama um það. Raunar mætti velta fyrir sér, hvort það væri svo alslæmt þótt einhver hópur ungs fólks tæki þar lán og brygði svo í brún nokkrum vikum síðar þegar kæmi að skuldadögum. Ef Vefþjóðviljinn veit rétt, þá bjóða fyrirtækin ekki nema um fjörutíu þúsund króna lán hið hæsta, svo maður sem kemur sér þar í vandræði hefur kannski í raun fengið mjög ódýra kennslu um alvöru fjárhagsskuldbindinga, sem gæti forðað honum frá raunverulegum fjármálaáföllum síðar á lífsleiðinni.
En sú hugleiðing er aukaatriði. Meiru skiptir að ráðherrann hyggst hér enn sækja fram gegn sjálfsákvörðunarrétti hins almenna borgara, þótt í litlu sé. Þarna hyggst ríkið enn að hafa vit fyrir fólki og banna því að hegða sér með einhverjum þeim hætti sem stjórnvöldum finnst óskynsamlegt. Frjálslynt fólk hlýtur að berjast gegn þessari nýjustu forsjárhyggju hins opinbera. Hvers vegna má Jón ekki taka lán hjá Gunnu, ef hún vill lána honum, og á þeim vöxtum sem þau verða ásátt um? Er ástæða til að skerða samningafrelsi þeirra beggja, þótt einum ráðherra líki ekki samningurinn? Það er ekki eins og þau hafi ætlað sér að ráða einhverja konu forstjóra Íbúðarlánasjóðs.