Miðvikudagur 8. september 2010

251. tbl. 14. árg.

S ífellt sést fréttamönnum yfir það sem blasir við. Þessa dagana segja þeir fréttir af því að ríkisstjórnin reyni nú ákaft að koma af stað viðræðum við bresk og hollensk stjórnvöld um að íslenskir skattgreiðendur taki á sig skuldir íslensks banka, sem ekki var ríkisábyrgð á. Fylgir sögunni að þeir bresku og hollensku séu tregir til viðræðna og setji skilyrði fyrir því að taka á móti hinum bljúgu sendimönnum Ísland.

Hvers vegna rifja fréttamenn nú ekki upp málflutning íslenskra ráðamanna dagana fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave-lög ríkisstjórnarinnar í vor? Þá komu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og helstu bergmálarar þeirra fram daglega og sögðu fráleitt að mæta á kjörstað, því miklu betra samningstilboð væri „á borðinu“. Hvers vegna biðja fréttamenn ekki um að fá að sjá það tilboð, með upplýsingum um hver hafi lagt það fram og hvenær það hafi verið gert? Hvers vegna spyrja þeir ekki ráðherrana að því, hvers vegna þeir gangi bara ekki að tilboðinu? Hvers vegna endurspila þeir ekki viðtölin og einræðurnar þar sem ráðherrarnir fullyrtu að landsmenn þyrftu nú ekki að ómaka sig á kjörstað?

Tilboðið var svo miklu betra, og svo mikið á borðinu, að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tóku ekki einu sinni þátt í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu lýðveldissögunnar. Þeir ættu varla að vera í erfiðleikum með að svara spurningum um þetta glæsilega tilboð og þetta stórfína borð.