Þriðjudagur 7. september 2010

250. tbl. 14. árg.

R íkisstjórnin er ekki alslæm. Á þessu ári hefur hún að minnsta kost færst nær Vefþjóðviljanum en fjær málflutningi ríkisstjórnarflokkanna í tveimur málum.

Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu í fyrra að reyna að hafa tvo „ópólitíska ráðherra“, svo það mótsagnarkennda hugtak sé notað. Tveimur ráðuneytum skyldu „fagmenn“ stýra. Vefþjóðviljanum finnst slíkt sýndarmennska. Og nú er tilrauninni lokið. Stjórnarflokkarnir hafa nú í rúmlega hálft annað ár horft á bæði hefðbundna pólitíska ráðherra og þá „ópólitísku“, og dómur þingflokka stjórnarflokkanna blasir nú við, hvort sem þingmennirnir þora að kannast við hann eða ekki: „Ópólitísku ráðherrarnir“ heyra nú sögunni til, en allir ráðherrar eru nú kjörnir þingmenn sem fela ekki þá staðreynd að þeir eru stjórnmálamenn.

Hitt atriðið eru þjóðaratkvæðagreiðslur. Stjórnarflokkarnir töluðu fyrir slíku, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Í vor stóðu þeir frammi fyrir einni slíkri, samkvæmt skilningi þeirra sjálfra á stjórnarskránni og synjunarvaldi forseta Íslands. Og hvað gerðist? Forystumenn stjórnarflokkanna sátu heima og fóru ekki leynt með þá ákvörðun sína. Formenn stjórnarflokkanna fóru eins nálægt því og þeir gátu, án þess að gera það hreinskilnislega berum orðum, að hvetja sitt fólk til að taka ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Helstu málpípur tóku undir. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldissögunnar fór fram og þá sátu forsvarsmenn vinstriflokkanna heima. Þetta er staðreynd sem þeir geta ekki kjaftað sig frá, nema í eyrum allra harðsvíruðustu stuðningsmanna sinna. 

Í þessum tveimur málum hafa skýr verk stjórnarflokkanna því sýnt greinilega, að flokkarnir hafa færst með afgerandi hætti nær sjónarmiðum Vefþjóðviljans en fjær sínum eigin sjónarmiðum á síðustu árum. Því ber vitanlega að fagna.