Í Morgunblaðinu í dag birtist opnuauglýsing frá Andríki þar sem vakin er athygli á því að mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar samkvæmt skoðanakönnun Capacent-Gallup.
Ein ástæða þess að Andríki auglýsir þessa könnun er að svonefnd fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði ekki frá niðurstöðum hennar. Það er auðvitað furðulegt að fréttastofa segi ekki frá niðurstöðum könnunar um þetta mikilvæga mál sem hefur verið helsta fréttaefni síðustu mánaða og ræður ferðinni í störfum Alþingis um þessar mundir. Flestir aðrir innlendir fréttamiðlar gerðu það hins vegar og einhverjir erlendir einnig. Fréttamat Ríkisútvarpsins í Icesave og ESB málum er orðið verðugt rannsóknarefni.
Í auglýsingu Andríkis er jafnframt undirstrikað að gangist íslenska ríkið í ábyrgð fyrir Icesave-skuldunum sé það alfarið ákvörðun þeirra þingmanna sem samþykkja það, ekki annarra. Það er einfaldlega pólitísk ákvörðun að sökkva ríkissjóði í slíkt skuldafen. Ábyrgð á þeirri ákvörðun er ekki hægt að vísa á aðra en þá sem taka hana. Það liggur einfaldlega ekki fyrir með neinum öðrum hætti að íslenskir skattgreiðendur eigi að greiða þessar skuldir Landsbankans.
Auglýsing af þessu tagi kostar sitt en er möguleg vegna hins góða hóps lesenda Vefþjóðviljans sem styður útgáfuna, ýmist með mánaðarlegum greiðslum af greiðslukorti eða sendingum inn á bankareikning félagsins.