N ær samstundis eftir árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 voru höfð uppi mikil viðvörunarorð, einkum utan Bandaríkjanna, að Bandaríkjamenn yrðu nú fyrst og fremst að gæta sín á eigin viðbrögðum. Mestu skipti, að menn færu ekki svo á taugum við hinar skelfilegu árásir, að réttarríkið og borgaravernd hyrfi. Að óttinn við frekari árásir, og löngunin til að koma lögum yfir þá seku, yrði ekki til þess að grundvallaratriði hyrfu og gleymdust. Gagnrýnendur Bandaríkjastjórnar sögðu, að ef þrengt yrði að persónufrelsi eða grundvallarmannréttindum, þá hefðu hryðjuverkamennirnir unnið meiri sigur en þegar þeir myrtu fólkið í turnunum.
Æ síðan hefur því verið haldið fram að bandarísk stjórnvöld, Bush-stjórnin og lengst af með stuðningi demókrata, hafi gengið allt of langt í viðbrögðum sínum innanlands. Allskyns persónuréttindi hafi horfið, því ekki hafi þurft annað en að nefna „stríð við hryðjuverk“ eða „eftir-ellefta-september“ og þá víki öll önnur sjónarmið og andstaða hverfi. Enda var það lengi vel að fáir vildu mótmæla því sem sagt var gert vegna hryðjuverkaárásanna. Skyndilegar hörmungar, krísutímar, geta ruglað menn í ríminu.
Hvernig hefur ástand og umræða verið á Íslandi eftir hrun stóru bankanna þriggja? Hafa menn hér staðið sig svo mikið betur en margir segja að Bush-stjórnin hafi gert, þegar horft er til munarins á því sem yfir þessi ólíku lönd hefur dunið? Er ekki orðið viðkvæði gjammara hér að nú skipti litlu máli hvað segi í lögum? Rétt eins og þeir, sem í Bandaríkjunum sögðust berjast „gegn hryðjuverkum“, fengu frítt spil fyrst eftir ellefta september, þá virðast menn hér komast upp með hvað sem er núna, ef þeir bara segjast berjast gegn „spillingunni“ eða „gamla tímanum“. Sjaldan er spurt að því hvað lög segja, nú þegar öskurkór bloggsíðnanna dæmir mann og annan. Menn virðast meira að segja almennt halda að nú þurfi enginn að bera ábyrgð á orðum sínum, allt sé leyfilegt þeim sem „berjast gegn spillingunni“.
Þeir sem vilja halda uppi vörnum fyrir réttarríkið eru úthrópaðir. Embættismenn sem virðast vilja fara eftir lögum, það er reynt að öskra þá úr starfi. Saksóknarar og rannsóknarmenn sitja undir ópum um að þeir verði að drífa sig og ákæra menn og kyrrsetja eignir. Þeir skuli sko vita að ef þeir verði með einhvern „hvítþvott“ þá séu þeir allir óhæfir og í liði með spillingunni.
Og því miður, ákærur og aðrar rannsóknarniðurstöður sem verða til í slíku andrúmslofti, geta kannski glatt nokkra menn í skamman tíma, en þegar frá líður taka fáir það alvarlega. Sem er skaði, því ástæða hefði verið til að rannsaka málin af yfirvegun. En öskurkórinn gæti náð því fram með ákafa sínum, að draga verulega úr trúverðugleika alls þess sem gert er til að komast til botns í bankaþrotinu.