Það hefur án efa hlakkað í einhverjum í gær eftir nýjasta útspil samkeppnisyfirvalda sem varðar „Skýrslu kostnaðargrunnsnefndar Lögmannafélags Íslands um rekstarkostnað lögmannsstofu og útreikning tímagjalds“. Þeir er án efa til sem telja að lögmenn hafi nú aldeilis fengið fyrir ferðina og ekki seinna vænna. Finnst sjálfsagt sumum að þetta sýni og sanni að samkeppnisyfirvöld séu hið gagnlegasta fyrirbæri í baráttunni gegn öllum þeim sem koma sér endalaust saman um hitt og þetta gegn öllum hinum. Þeim finnst trúlega um leið að menn vaði villu og svíma þegar þau lög og reglur sem samkeppnisyfirvöld byggja úrskurði sína á eru gagnrýnd hér á þessum síðum. Það er því ekki vitlaust að árétta af þessu tilefni þá skoðun að samkeppnisreglur eru ekki vænlegar til árangurs ef markmiðið er að tryggja sem mesta og fjölbreyttasta samkeppni. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum eru það hins vegar reglur sem eru vandamálið og það vandamál á ekki að leysa með fleiri reglum heldur með því að afnema þær sem fyrir eru.
Í því máli sem hér um ræðir er það stéttarfélag lögmanna sem tekur það að sér að finna út heppilegt tímagjald fyrir lögmannsþjónustu. Nú er það svo að hér á landi eru allir starfandi lögmenn skikkaðir með lögum til aðildar að þessu stéttarfélagi og því hafa nákvæmlega allir lögmenn landsins tekið þátt í áðurnefndri skýrslugerð. Það er hins vegar óhætt að fullyrða að margir þeirra hafa ekki haft nokkurn einasta metnað til þess að færa gjaldskrár sínar til samræmis við þær sem kollegar þeirra halda. Allt að einu er hér um að ræða hagsmunabaráttu félags sem hefur fengið umboð til þess arna frá löggjafanum en ekki þeim sem málið varðar, í það minnsta ekki þeim öllum. Nú reynir hið opinbera að auka samkeppnina með því að beita enn annarri löggjöfinni, samkeppnislögum, í stað þess að draga úr lögformlegu umboði stéttarfélagsins. Þetta er auðvitað allt saman atvinnuskapandi hringekja og lögmenn geta huggað sig við það að úr þeirri hringekju koma þeir ekki fjárhagslega ringlaðir.
Hún er annars lífseig þessi árátta stjórnlyndra manna til að reyna að stjórna samkeppninni í stað þess að leyfa henni að blómstra. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú ásamt öðrum Samfylkingarmönnum lagt fram frumvarp til innheimtulaga. Þar er lagt til að dómsmálaráðherra, að fenginni umsögn áðurnefnds lögmannafélags, gefi út leiðbeiningar handa lögmönnum um hæfilegt endurgjald fyrir rukkanastarfsemi þeirra. Samkvæmt frumvarpinu má dómsmálaráðherra þó ekki stíga á tær viðskiptaráðherra sem einnig setur samræmda gjaldskrá um málið.
Já, Georg og félagar verða ekki atvinnulausir á næstunni.