Margrét Frímannsdóttir var talsmaður og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í þingkosningum árið 1999 þótt Samfylkingarmenn segðu í kosningunum 2003 að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri fyrsta konan sem ætti möguleika á því að verða forsætisráðherra. Margrét var og er formaður Alþýðubandalagsins. Össur Skarphéðinsson núverandi formaður Samfylkingarinnar á uppruna í Alþýðubandalaginu, bæði sem ritstjóri Þjóðviljans og varaborgarfulltrúi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núverandi varaformaður flokksins og forsætisráðherraefni fram til klukkan 22:01 hinn 10. maí árið 2003, kom úr Kvennalistanum. Eftir að klukkan sló 22:01 varð Halldór Ásgrímsson skyndilega forsætisráðherraefni flokksins. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar þar til nú í janúar var Bryndís Hlöðversdóttir úr Alþýðubandalaginu. Þegar hún lét af störfum tók Margrét Frímannsdóttir formaður Alþýðubandalagsins við.
„… má ætla að eins og staðan er nú eigi Össur meiri stuðning í þingflokknum en Ingibjörg Sólrún. Jafnvel má gera ráð fyrir að Ingibjörg geti ekki gengið að stuðningi nema fimm eða sex þingmanna vísum eða þriðjungi þingflokksins.“ |
Þegar litið er á forystu Samfylkingarinnar frá stofnun flokksins er óhjákvæmilegt að spyrja hvort Alþýðuflokkurinn hafi ekki tekið þátt í sameiningunni eða hvort Alþýðubandalagið hafi einfaldlega tekið Alþýðuflokkinn yfir. Forystumenn úr Alþýðuflokknum er annað hvort horfnir á braut, eins og Sighvatur Björgvinsson, eða hafðir í algjörum aukahlutverkum eins og Guðmundur Árni Stefánsson núverandi formaður Alþýðuflokksins og Rannveig Guðmundsdóttir fyrrum ráðherra og þingflokksformaður Alþýðuflokksins. Jafnvel Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra til sjö ára, sem var þó í þeim vinstri hluta Alþýðuflokksins sem klauf flokkinn með stofnun Þjóðvaka, hefur verið sett til hliðar. Þótt tilraun stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til að fella Jóhönnu úr fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík, með því að stefna Bryndísi Hlöðversdóttur gegn henni, hafi mistekist hrapalega var Bryndís gerð að þingflokksformanni en ekki Jóhanna. Og þegar Bryndís lét af formennsku var Margrét Frímannsdóttir látin hlaupa í skarðið en ekki fyrsti þingmaður flokksins í Reykjavík suður.
Það sem mun svo væntanlega gerast fram að næstu kosningum er að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reynir að stugga við formanninum á landsfundi flokksins á næsta ári. Takist það hverfur síðasta tengingin við Alþýðuflokkinn úr forystu flokksins en Össur var sem kunnugt er um hríð í Alþýðuflokknum eftir að hann gafst upp á ástandinu í Alþýðubandalagi Ólafs Ragnars Grímssonar. Sú sæla stóð stutt því eins og marka má af ofangreindri upptalningu hefur yfirtaka Alþýðubandalagsins á Alþýðuflokknum verið afar vel útfærð.
Það er auðvitað ómögulegt að spá hvort Össur stendur atlögu svilkonu sinnar af sér en þegar að því kemur, eins og ætíð í formannskjöri af þessu tagi, mun stuðningur í þingflokki vega þungt. Meiri hluti þingmanna flokksins kemur úr Alþýðubandalaginu en þrátt fyrir það má ætla að eins og staðan er nú eigi Össur meiri stuðning í þingflokknum en Ingibjörg Sólrún. Jafnvel má gera ráð fyrir að Ingibjörg geti ekki gengið að stuðningi nema fimm eða sex þingmanna vísum eða þriðjungi þingflokksins. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Mörður Árnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir teljast líklega til stuðningsmanna Ingibjargar en restin hallar sér að Össuri. Mörður, Rannveig Guðmundsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir eru á gráu svæði. Helgi Hjörvar hefði örugglega verið í liði Ingibjargar ef hún hefði ekki sett Stefán Jón Hafstein til höfuðs honum í svonefndu prófkjöri R-listans fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Það mun þó vafalaust hafa áhrif á marga þegar þar að kemur hvort er líklegri sigurvegari enda bæði skemmtilegra og vænlegra til frekari frama að veðja á réttan hest.
Það er auðvitað stórmerkilegt að meiri hluti þingmanna Samfylkingar skuli koma úr Alþýðubandalaginu þegar haft er í huga að stofnaður var annar vinstriflokkur af þeim sem sögðu skilið við Alþýðubandalagið þegar sameining vinstri flokkanna stóð fyrir dyrum og einn þingmanna flokksins gekk til liðs við Framsóknarflokkinn þótt stundum mætti ætla að þar hefði hugur ekki fylgt máli. Vinstri grænir hafa nú fimm menn á þingi en höfðu sex á síðasta kjörtímabili og virðast hafa fest sig í sessi sem stjórnmálaflokkur þótt þeir hafi ekki erft neitt af flokksskipulagi gömlu vinstriflokkanna, hvorki skuldir né flokksfélög. Hefði mátt ætla að úr því þessi hópur tók ekki þátt í sameiningu vinstri manna hefðu kratar átt að eiga sterkari stöðu í Samfylkingunni en raun ber vitni. En í stað þess eru í raun orðin til tvö Alþýðubandalög.
Hvaðan koma þingmenn Samfylkingarinnar? | ABLLOGO | ALTHYGDUFLOKKSLOGO | KVENNALISTALOGO | FRAMSOKNARMERKI | |
Anna Kristín Gunnarsdóttir | x | ||||
Ágúst Ólafur Ágústsson | ? | ||||
Ásta R. Jóhannesdóttir | x | x | x | ||
Björgvin G. Sigurðsson | x | ||||
Bryndís Hlöðversdóttir | x | ||||
Einar Már Sigurðarson | x | ||||
Guðmundur Árni Stefánsson | x | ||||
Guðrún Ögmundsdóttir | x | ||||
Helgi Hjörvar | x | ||||
Jóhann Ársælsson | x | ||||
Jóhanna Sigurðardóttir | x | x | |||
Jón Gunnarsson | x | ||||
Katrín Júlíusdóttir | x | ||||
Kristján L. Möller | x | ||||
Lúðvík Bergvinsson | x | ||||
Margrét Frímannsdóttir | x | ||||
Mörður Árnason | x | x | |||
Rannveig Guðmundsdóttir | x | ||||
Þórunn Sveinbjarnardóttir | x | ||||
Össur Skarphéðinsson | x | x |