Nú er brennivínið orðið svo dýrt, að ég hef ekki efni á að kaupa mér skó. |
– Þórður Guðjohnsen, verslunarmaður. |
Ísíðustu viku voru liðin fjögur ár frá andláti Þórðar Guðjohnsen, sem lengi starfaði í versluninni Hamborg í Reykjavík og var þekktur sem einn af orðheppnustu gleðimönnum borgarinnar. Sína frægustu setningu mælti hann eftir eina áfengishækkunina og ekki þá smæstu, en ráðamenn hafa lengi freistast til að skattleggja fólk sérstaklega ef það kaupir sér áfengisflösku. Enn virðast stjórnmálamenn sjá þar tekjumöguleika því í gærkvöldi rann í gegnum Alþingi – mótatkvæðalaust vitaskuld – nýtt frumvarp fjármálaráðherra um hækkun opinberra gjalda á tóbak og sterkt áfengi og mun það hækka verð þessara mikilvægu vara, neytendum til byrði en hinu opinbera til ávinnings.
Fjármálaráðherra gaf einkum tvær skýringar á þeirri ákvörðun sinni að leggja þetta frumvarp fram. Í fyrsta lagi hefðu nýlega verið ákveðin mikil ný útgjöld ríkissjóðs sem afla þyrfti tekna fyrir og í öðru lagi hefðu gjöld þessi ekki fylgt verðlagsþróun. Nei, auðvitað dettur engum í hug að fjármagna megi hin nýju útgjöld með því að skera niður þau sem fyrir voru. Það verður að hækka opinber gjöld og tilvalið að leggja þau gjöld á drykkjumenn og tóbaksnotendur. Nú og auðvitað mátti ekki við það sitja að áfengisgjaldið fylgdi ekki verðlagsþróun. Þá væri eiginlega verið að lækka gjöld. Og hver vill það?
Fyrir ári var ákveðið að reyna að hemja með einhverju móti hinn stöðuga vöxt ríkisútgjalda og datt þá nokkrum þingmönnum í hug að fresta fyrirhugaðri lengingu fæðingarorlofs karla, en með því móti hefði mátt spara stórfé. En nei, þrýstihópurinn sem hafði knúið fæðingarorlofslögin í gegn – þessi lög sem kosta skattgreiðendur tugi milljarða króna á hverju kjörtímabili – reis upp á afturlappirnar og sparnaðarmenn lyppuðust niður. Í ár á meira að segja að lengja fæðingarorlofið enn meira með tilheyrandi útgjaldaaukningu fyrir skattgreiðendur. Og veri menn vissir, það mun enginn einu sinni reyna að leggja til að þessari nýjustu aukningu verði frestað. Að ekki sé talað um aukninguna sem kom á þessu ári, það mun enginn þora að nefna hana af ótta við að fá rétttrúnaðarliðið yfir sig.
Nei, útgjöldin verða ekki skorin niður. Það verða bara lögð á ný gjöld. Sá sem ekki trúir því ætti að gera það sér til skemmtunar að stinga upp á því að í stað þessara nýjustu hækkana verði því frestað um þó ekki væri nema eitt ár að lengja fæðingarorlofið enn. Eða að sett verði þak á það hve miklar fjárhæðir hver og einn styrkþegi getur fengið úr ríkissjóði en á því eru engin takmörk nú! Það þarf enginn að láta sér detta í hug að í fjármálaráðuneytinu verði hlustað á slíkar hugmyndir. Þar munu útgjöld ekki verða lækkuð meðan enn finnst ónýttur skattstofn.