Laugardagur 30. nóvember 2002

334. tbl. 6. árg.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra flutti ræðu á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í gær þar sem hann sagði m.a.: „Stækkun Evrópusambandsins hefur verið mikið í fréttum, enda full ástæða til. Með stækkun Evrópusambandsins er verið að stíga risavaxið skref og þetta eru svo sannarlega tíðindi sem varða okkur Íslendinga. Með mikilli vinnu og nánu samstarfi við EFTA-þjóðirnar höfum við náð samningum um fríverslun við umsóknarþjóðirnar, sem við höfum hins vegar ekki að fullu gagnvart sambandinu. Á þessum mikilvægu krossgötum eru settar fram kröfur um að við greiðum til sameiginlegra sjóða ESB eins og við værum aðilar án þess að njóta réttinda aðildarríkja. Ef ekki tekst á næstu vikum og mánuðum að semja um annað er hluti þeirrar fríverslunar sem hefur tekist að semja um liðin tíð.“

Skömmu síðar í ræðunni bætti ráðherrann við: „Ég hef ekki síst talið það skyldu mína að gangast fyrir opinni og fordómalausri umræðu um ESB, vegna þess að ég vil ekki að sá dagur renni upp að við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að sækja um inngöngu í Evrópusambandið, en þá á forsendum annarra. Ef það liggur fyrir okkur að gerast aðilar að Evrópusambandinu, verður það að gerast á okkar eigin forsendum, ekki í nauðvörn. Það verður að gerast að vandlega athuguðu máli. Þess vegna er umræðan lífsnauðsynleg.“

Við eigum ekki að ganga í ESB í „nauðvörn“ segir ráðherrann en hefur lýst því nokkrum sekúndum áður að Íslendingar séu í nauðvörn vegna hótana ESB um að afnema fríverslun okkar við ýmsar þjóðir Austur-Evrópu, sem að öllum líkindum ganga í ESB innan skamms, ef við greiðum ekki milljarða króna í hina risavöxnu byggðastofnun sambandsins. Það segir út af fyrir sig nokkra sögu um Evrópusambandið að fríverslunarsamningar nýrra aðildarríkja við ríki utan sambandsins skuli falla niður við inngöngu þessar ríkja. Evrópusambandið er einn helsti andstæðingur fríverslunar í heiminum eins og hvað eftir annað hefur komið í ljós í viðræðum á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar um frjálsa verslun. En hvað er utanríkisráðherrann að fara? Eiga Íslendingar ekki að ganga í sambandið á meðan þessum hótunum stendur? Eða talar hann þvers og kruss? Ætlar hann að nota tilraunir ESB til að kúga fé af Íslendingum til að ýta þjóðinni inn í sambandið?