Helgarsprokið 1. desember 2002

335. tbl. 6. árg.

Fréttir um að ástand jarðarinnar sé allgott og ekki í hættu vegna athafna mannsins þykja ekki spennandi. Þær ná ekki forsíðum dagblaða og tímarita og þeirra er lítið getið í sjónvarpi. Öðru máli gegnir um hæpnar kenningar og jafnvel rangtúlkanir á niðurstöðum vísindamanna um að jörðin sé í verulegri hættu vegna athafna mannsins. Slíkar kenningar hafa iðulega orðið stærstu „fréttir“ virtra fjölmiðla. John R. Christy kemur stuttlega inn á þetta í upphafi kafla síns um hitnun jarðarinnar í bókinni Global Warming and Other Eco-Myths, en það er bók sem Competitive Enterprise Institute gaf út fyrr á þessu ári undir ritstjórn Ronalds Baileys.

„Staðreyndin sé sú að þegar litið er á Suðurskautslandið í heild hafi dregið úr bráðnun íss vegna þess að hiti þar hafi lækkað á síðustu þremur áratugum. Nýjar upplýsingar sýni að íshellan þykkni nú eftir að hafa þynnst í 10.000 ár.“

Christy nefnir sem dæmi að New York Times sló því upp fyrir ekki alls löngu að Norðurpóllinn væri að bráðna og hafði þetta eftir ferðamanni þar, sem raunar er prófessor við Harvard háskóla. Blaðið dró svo þá ályktun að þetta væri dæmi um afleiðingarnar af útblæstri gróðurhúsalofttegunda af manna völdum. Fljótlega kom í ljós að þetta var allt á misskilningi byggt og loks varð New York Times að viðurkenna mistökin, en gerði það þá í lítið áberandi frétt á innsíðu. Washington Post á ámóta sögu að baki. Um mitt ár í fyrra sagði blaðið „frétt“ af því að jöklar í Perú væru á hröðu undanhaldi vegna hækkandi hitastigs jarðar. Heimild blaðsins var perúskur jöklasérfræðingur, en hann virðist hins vegar ekki hafa áttað sig á því að síðustu rúmlega tvo áratugi hefur hitastig farið lækkandi á þeim svæðum sem jöklar Perú eru staðsettir. Þrátt fyrir að slíkar upplýsingar megi lesa út úr mælingum á hitastigi var fréttinni slegið upp á forsíðu Washington Post. Þriðja dæmið sem Christy nefnir er úr vikuritinu Time. Þar var á forsíðu í fyrra greint frá því að bráðnun íss hefði aukist á Suðurskautslandinu á síðustu tveimur áratugum, en Christy segir að Time hljóti að vera með mjög staðbundnar mælingar til að styðja þessa frétt. Staðreyndin sé sú að þegar litið er á Suðurskautslandið í heild hafi dregið úr bráðnun íss vegna þess að hiti þar hafi lækkað á síðustu þremur áratugum. Nýjar upplýsingar sýni að íshellan þykkni nú eftir að hafa þynnst í 10.000 ár.

Christy, sem er með doktorsgráðu í loftslagsfræðum, er einn þeirra 122 vísindamanna sem rituðu nýjustu skýrslu IPCC, Intergovernmental Panel of Climate Change, sem gefin var út í ágúst í fyrra. Til skýrslna IPCC er gjarnan vitnað þegar fjallað er um breytingar á loftslagi jarðar og látið að því liggja að þessir 122 vísindamenn séu sammála um allt sem þar kemur fram og að þeir hafi tekið saman útdráttinn sem helst er vitnað til. Christy segir hins vegar að því fari víðs fjarri og flestir höfundar hafi ekkert með aðra kafla að gera en þá sem þeir skrifa sjálfir. Og útdrátturinn sjálfur, sem sendur var í fjölmiðla, var lesinn yfir og lagaður til af stjórnmálamönnum og hefur iðulega verið gagnrýndur fyrir að draga upp ranga mynd af því sem í skýrslunni er. Í útdrættinum sé fyrirvörum og efasemdum sleppt og framsetningin sé með þeim hætti að hún henti vel til uppsláttar í fjölmiðlum.

Christy fjallar töluvert um þau líkön sem notuð eru við að spá til um hitastig jarðar í framtíðinni og gefur lítið eða ekkert fyrir niðurstöður þeirra. Hann bendir sem dæmi á að setja þurfi áhrif af skýjum inn í líkönin, því ský hafi áhrif á hitastigið. Þessi áhrif séu hins vegar ekki einföld, sum ský haldi hitageislum sólarinnar frá jörðunni og verka því líkt og speglar, en önnur haldi hita á jörðinni líkt og teppi. Þau líkön sem spái fyrir um mestu hitaaukninguna geri ráð fyrir að öll ský hafi sömu verkun og teppi og haldi hita á jörðinni, en það sé óeðlileg forsenda. Enginn viti í dag hvernig skýjafarið verði og meðal annars af þeirri ástæðu segi líkönin lítið um framtíðina. Christy bendir einnig á að líkönunum hafi ekki tekist að spá fyrir um hitabreytingar fyrir ofan yfirborð jarðar. Gervihnattamælingar og mælingar með veðurbelgjum, sem látnir eru svífa upp í gegnum andrúmsloftið, sýni að hitastig hafi ekki farið hækkandi þegar komið er í nokkra hæð yfir jörðu, þó líkönin bendi til annars og mælingar á jörðu niðri sýni lítilsháttar hækkun á þessu tímabili. Gervihnattamælingar, sem almennt eru taldar þær nákvæmustu sem völ er á, hafa staðið yfir frá árinu 1979. Samkvæmt þeim hefur hitastig jarðar einungis hækkað um 0,06¨C á áratug, sem er lítil hitabreyting miðað við þær sveiflur sem hiti jarðar hefur farið í gegnum á liðnum áratugum og öldum.

Margir spyrja sig hvort loftslag jarðar sé að breytast og Christy segir að því sé auðvelt að svara; loftslag jarðar hafi alltaf tekið miklum breytingum og muni gera það áfram. Hann er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að verulegar breytingar séu að verða af manna völdum en menn geti búist við lítilsháttar breytingum sem séu vel viðráðanlegar og ekki sé ástæða til að bregðast við þeim með opinberum aðgerðum á borð við Kyoto-samkomulagið. Hann segir slíkar aðgerðir dýrar og skaðlegar og bendir á ýmislegt sem er umhugsunarvert fyrir þá sem vilja draga úr notkun manna á orku. Eitt af því er að nú þurfi í Bandaríkjunum helmingi minni orku en fyrir 30 árum til að framleiða sama magn og hann bendir á að þar sem orka sé ekki ókeypis muni menn áfram reyna að finna leiðir til að nota æ minni orku við framleiðsluna. Þessar tækniframfarir muni koma frá uppfinningamönnum sem sækist eftir auði eða frægð, en ekki vegna tilskipana hins opinbera. Og Christy bendir á að samkvæmt þeim líkönum sem Kyoto-samkomulagið byggi á muni áhrifin af samkomulaginu næstu eitt hundrað árin nánast ekki verða nein, eða um 0,1¨C. Kostnaðurinn fyrir Bandaríkin hafi hins vegar verið áætlaður á bilinu 1%-3% af landsframleiðslunni á ári, sem er ávísun á afturför og sjálfsagt skýringin á því að Bandaríkin taka ekki í mál að vera með í þessu dýra og tilgangslausa ævintýri.

Að lokum má minnast á annað sem vinsælt er að fjalla um nú um stundir, en það er að veður verði æ öfgakenndari. Til marks um þetta eru stundum nefndir hvirfilbylir, en að þeim víkur Christy einmitt í skrifum sínum. Hann vitnar til skýrslu IPCC um hvirfilbyli, en þar segir að hvorki kraftur né tíðni þeirra hafi aukist á síðari hluta tuttugustu aldar. Þeir sem fylgjast með fréttum eru hins vegar líklega þeirrar skoðunar að hvirfilbylir séu mun algengari og ofsafengnari nú en áður fyrr.