Ádögunum var birt einhver skoðanakönnun sem sýndi að Geir H. Haarde fjármálaráðherra er vinsælasti ráðherrann. Að vísu ekki meðal stuðningsmanna eigin flokks heldur kjósenda almennt. Ef til vill hljómar þetta sem gleðifregn fyrir ráðherrann og er það líklega fyrir hann prívat. En þetta er ekki alveg svona einfalt. Eru vinsældir kannski ekki besti mælikvarðinn á störf ráðherra fjármála ríkisins?
Eins og sjá má af grafinu hér að neðan voru útgjöld ríkisins á árunum 1993 til 1998 í nokkuð föstum skorðum. Síðustu árin hafa þau bönd sem mönnum hafði tekist að koma á ríkissjóð losnað með þeim afleiðingum að á næsta ári er gert ráð fyrir að ríkisútgjöldin verði yfir 250 milljarðar króna og hafi aukist um 75 þúsund milljónir frá árinu 1997. Þessar 75 þúsund milljónir myndu duga til að fella niður hlut ríkisins í tekjuskatti einstaklinga og vel það. Þá stæði aðeins eftir um 13% útsvar sveitarfélaga. Sparsemi og ráðdeild er því ekki ástæðan fyrir vinsældum ráðherrans. Enda kemur hann aldrei fram til að verja skattgreiðendur fyrir ásælni hagmunahópa sem sífellt herja á ríkissjóð. Það ætti þó að vera helsta hlutverk fjármálaráðherrans.
Fjármálaráðherrann á að vera maðurinn sem stendur vörð hverja krónu í ríkissjóði en ekki maðurinn sem hvetur eyðsluseggina til dáða. Hann á ekki að hika við að bjóða hagmunahópunum birginn þegar sótt er í ríkissjóð. Hann á ekki að vera fremstur í flokki þeirra sem heimta himinháar félagslegar bætur fyrir hátekjufólkið eins og þegar hann fór fyrir liðinu sem breytti lögum um fæðingarorlof. Hann á ekki að setja útgjaldaliði í fjárlagafrumvarpið gegn ráðum fagráðherra eins og þegar hann fór gegn vilja Páls Péturssonar um framlög til Sólheima. Hann á ekki að láta sig dreyma um að fjárfesta á erlendum hlutabréfamörkuðum fyrir skattfé fremur en að lækka skatta eins og hann missti út úr sér í viðtali við Morgunblaðið fyrir rúmum tveimur árum.
Það er hreint út sagt eitthvað mikið að þegar fjármálaráðherrann er vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar. Virðist það helst vera að hann lætur allt eftir öllum nema þeim sem vilja að skattgreiðendur haldi meiru eftir af sjálfsaflafé sínu.
UTGJOLDRIKISSJ91_01<!––> <!––>